144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessari tillögu verður grundvallarbreyting á rétti til atvinnuleysisbóta á Íslandi. Í fyrsta skipti frá því að atvinnuleysistryggingum var komið á í mjólkurverkfallinu 1955 er þessi réttur einhliða skertur af hálfu stjórnvalda, án þess að tala við viðsemjendur. Þriggja ára bótatímabil var ákveðið í þríhliða samráði aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins árið 2006 þegar ekkert atvinnuleysi var í landinu þannig að það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslum ríkisstjórnarinnar fyrir skerðingunni hér.

Til að bæta gráu ofan á svart er enginn fyrirvari gefinn hér, ríkisstjórnin veitir af örlæti sínu greinum ferðaþjónustunnar, sem þurfa að aðlaga sig nýrri skattheimtu, aðlögunartíma allt til 1. janúar 2016 en fólkið sem reiðir sig á framfærslu úr kerfi atvinnuleysisbóta mun missa framfærslu sína strax um næstu áramót eins og hendi sé veifað. Og hvað gerist þá? Hættan er sú og reynsla annarra landa segir okkur að það fólk hverfi sjónum okkar og við sjáum það ekki (Forseti hringir.) þaðan í frá. Við vitum ekkert hvernig því gengur að komast aftur inn á vinnumarkaðinn og það verður jafnvel bótaþegar lengi, lengi, lengi.