144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er einhliða verið að skerða bótarétt atvinnulauss fólks um hálft ár. Það er stjórninni til háborinnar skammar og án samráðs við aðila vinnumarkaðarins og bara sisona. Hvert á þetta fólk að fara? Hvað bíður þess? Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem er þó nokkuð mikið lægri og sendir þetta fólk inn í enn þá meiri fátækt og vonleysi. Sveitarfélögin fá engan aðlögunartíma til að standa við bakið á þessu fólki og taka á móti þessum auknu útgjöldum. Það er líka verið að skerða framlag til fræðslusjóðs til fólks með litla formlega menntun.

Það er allt á sömu bókina lært hjá þessari ríkisstjórn. Það er ráðist að þeim sem minna mega sín og menn reyna ekki að standa með því fólki. Það er haldið áfram að vefja stórútgerðinni í landinu í bómull. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin hendir frá sér fjármagni sem hefði verið hægt að (Forseti hringir.) innheimta og gera betur við heilbrigðiskerfi landsins. (Gripið fram í.)