144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég lýsi undrun minni yfir því sama og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir. Ég hafði skilið það þannig að hæstv. forsætisráðherra kæmi í dag, hafði satt að segja ekki hugmyndaflug til þess að ríkisstjórnin og forseti þingsins skipulegðu atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. um fjárlög á þann hátt að forsætisráðherra landsins ætti þess ekki kost að vera viðstaddur. Ef það er þannig að það hefur legið fyrir að forsætisráðherra ætti ekki heimangengt á þessum tíma, sem auðvitað getur komið fyrir, þá hefði verið sjálfsagt að taka tillit til þess og hafa atkvæðagreiðslu um fjárlög eftir 2. umr. á annarri stund. En það er enginn bragur á því, hvorki fyrir Alþingi Íslendinga né fyrir ríkisstjórn Íslands, að forsætisráðherra landsins sé ekki viðstaddur efnislega afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins, þingmáls nr. 1.