144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að leiða ýmislegt af því sem hér er að finna í lög en það er veruleg ástæða fyrir nefndina að fara gagnrýnið í gegnum það að opna víðtækar valdheimildir til inngripa og yfirtöku stofnana og fyrirtækja til framkvæmdarvaldsins um alla framtíð, jú, vissulega við neyðarástand, nema að því leyti sem þess er þörf. Maður hlýtur að spyrja um tilefnin, hvort almannavörnum hafi verið neitað af stofnunum eða fyrirtækjum á mikilvægum stundum um það sem þær hafa til þurft. Höfum við ekki með gildandi valdheimildum fengist við Vestmannaeyjagos, við gos í Eyjafjallajökli og allt það sem kom fyrir flugumferðina þá, við efnahagshrun á Íslandi og margvíslega aðra stórkostlega vá og tekist það ótrúlega giftusamlega miðað við þá miklu hættu sem aðsteðjandi var á grundvelli gildandi valdheimilda?