144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlusta á þau sjónarmið sem hér hafa komið fram af hálfu þingmanna og ætla að ígrunda þau líka. Ég tel þó að ég geti sagt á þessu stigi að vissulega felst það í hugsun frumvarpsins að valdheimildirnar séu fyrir hendi þó að því gefnu að þær séu leiddar fram á réttan hátt og skynsamlega. Það er náttúrlega það sem við getum og munum ræða hér í þinginu vonandi í rólegheitum þegar umræðurnar komast lengra, þ.e. hvernig yfirmaður eða ráðherra almannavarna grípur inn í ef sú staða kemur upp að grípa þarf til slíkra valdheimilda, ef við tökum til dæmis mikilvæga samfélagslega innviði eins og getið var um í ræðu minni, að allt slíkt skipulag sé geirneglt í lagasetningu af þessu tagi.