144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar um fjáraukalagafrumvarpið. Fyrir 3. umr. hafa orðið breytingar á frumvarpinu eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór yfir áðan. Færðir hafa verið 13 milljarðar kr. á fjármunahreyfingar í sjóðstreymi vegna endurgreiðslu á stofnfé Seðlabanka Íslands. Minni hlutinn telur að fara þurfi betur yfir framsetningu þessarar aðgerðar í fjáraukalögum og síðan í ríkisreikningi.

Að okkar mati hefur óvissu um frágang á lækkun stofnfjár Seðlabanka Íslands ekki verið eytt með öllu með þeirri aðgerð sem er sýnd hér fyrir 3. umr. fjáraukalaga. Ástæðan er í fyrsta lagi sú að ætla má að lækkun stofnfjár í Seðlabankanum ætti ekki að fara í gegnum rekstrarreikning ríkisins, hins vegar ætti uppsafnaður hagnaður að tekjufærast, þ.e. lækkun umfram stofnfé. Því þarf að taka betur til skoðunar hvernig meðhöndla ber umræddar breytingar á eigin fé bankans í reikningsskilum ríkissjóðs.

Í öðru lagi gerir lækkun á stofnfé Seðlabankans eins og hún er sett fram núna ráð fyrir að fullt samræmi verði í árslok á milli stofnfjár Seðlabankans og mats þess í aðalbókhaldi ríkissjóðs. Hins vegar er ekki slíkt samræmi við bókun á eigin fé annarra félaga og hlutafélaga í bókhaldi ríkissjóðs og að mati minni hlutans er eðlilegt að samræmi sé í meðhöndlun eignarhluta.

Millifærðar eru 357,8 millj. kr. af liðnum Ófyrirséð útgjöld á sjö ríkisstofnanir vegna eldsumbrotanna við norðanverðan Vatnajökul og nemur heildarkostnaður ríkissjóðs vegna þeirra því um 686,8 millj. kr. á árinu. Við afgreiðslu lokafjárlaga verður farið yfir kostnað viðkomandi aðila og lagt mat á hvort hluti framlagsins verði felldur niður reynist hann hærri en raunútgjöld.

Það eru millifærðar 50 millj. kr. af liðnum Ófyrirséð útgjöld yfir á liðinn Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi vegna þátttöku Íslands í aðgerðum Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu til að bregðast við versnandi öryggishorfum í Úkraínu fyrr á þessu ári.

Framlag til Búnaðarsjóðs verður hækkað um 100 millj. kr. til samræmis við hækkun ríkistekna af búnaðargjaldi í tekjuáætlun við 2. umr. Fjárheimild umboðsmanns skuldara verður lækkuð um 43,6 millj. kr. Í frumvarpinu hafði áður verið gerð tillaga um 72 millj. kr. lækkun heimildarinnar og er heimildin því nú áætluð 740 millj. kr. sem er sama fjárhæð og markaðar tekjur stofnunarinnar.

Fjárheimild að upphæð 650 millj. kr. af liðnum Öldrunarstofnanir, almennt hefur verið skipt á hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir og er sýnd í sérstöku yfirliti við 3. umr. Um er að ræða jafnlaunaátak sem einkum er ætlað að gera hjúkrunarheimilum, endurhæfingarstofnunum og sambærilegum aðilum kleift að gera hliðstæðar kjarabreytingar í tengslum við kjarasamninga á þessu ári og áttu sér stað hjá stéttarfélögum ríkisrekinna heilbrigðisstofnana í tengslum við stofnanasamninga á síðasta ári. Fjárhæðin var áður færð á safnlið öldrunarstofnana til hagræðis í frumvarpinu.

Minni hlutinn telur að í ljósi eldsumbrotanna í Holuhrauni þurfi að stofna sérstakan hamfarasjóð sem sjái um þá þætti sem aðrir sjóðir tryggja ekki eins og ofanflóðasjóður, Bjargráðasjóður og Viðlagatrygging Íslands. Má sem dæmi nefna afleiðingar flóða af völdum gosa.

Virðulegi forseti. Okkur í minni hlutanum finnst mjög mikilvægt að við lærum af því sem gerst hefur, bæði eftir jarðskjálfta og eins snjóflóð og eldgos, að við byggjum upp góðan sjóð sem gæti innifalið allt þetta eða staðið til hliðar við þá sjóði sem við erum nú þegar með.

Undir þetta nefndarálit skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Brynhildur Pétursdóttir og Bjarkey Gunnarsdóttir.

Ég vil nota tíma minn hér til að tala um þrennt sem er í fjáraukalagafrumvarpinu þó að það hafi fengið afgreiðslu vegna þess að það hefur áhrif á fjárlögin sem enn hafa ekki hlotið endanlega afgreiðslu. Áður en ég fer yfir það vil ég gera athugasemdir við dagskrá þingsins í dag. Við erum hér að ræða fjáraukalög en stór hluti af þeim tekjum sem sýndar eru í fjáraukalögum, 21 milljarður, byggir á lögum um Seðlabanka Íslands sem er 5. mál á dagskrá og er að koma til 2. umr. Ég vænti þess að fjáraukalögin verði ekki afgreidd með atkvæðagreiðslu í þingsal áður en lögin um Seðlabankann hafa verið afgreidd því að það væri undarleg röðun á afgreiðslu mála.

Ég vil aftur nefna þær upphæðir sem færðar eru við það að eigið fé Seðlabankans er lækkað. Það er talað um 21 milljarð kr. sem færður er tekjumegin og fer síðan í það að greiða niður skuldabréfið á milli ríkisins og Seðlabankans. Minni hlutinn hafði samband við Ríkisendurskoðun þegar frumvarpið kom til meðferðar í hv. fjárlaganefnd og bað Ríkisendurskoðun um að fara yfir þessar færslur og þessa aðgerð alla, en fyrst var miðað við að þarna yrði um 26 milljarða kr. að ræða. Ríkisendurskoðun benti okkur á að 26 milljarða kr. lækkun á eigin fé bankans mundi þýða að eigið fé hans færi niður í 64 milljarða kr. sem leiddi til þess að eignarhlutur ríkissjóðs í bankanum væri skráður 13,5 milljörðum kr. of hátt í ríkisreikningi. Samhliða ofangreindri endurgreiðslu frá Seðlabankanum þyrfti um leið að gjaldfæra 13,5 milljarða kr. hjá ríkissjóði, svo ég vitni nú beint í bréf Ríkisendurskoðunar. Það var tekið tillit til þessa þannig að gert var ráð fyrir að skuldabréfið lækkaði niður í 21 milljarð kr. í staðinn fyrir 26, en á móti kom að áætlaður hagnaður Seðlabankans á árinu 2014 yrði færður inn á árið 2014 en ekki 2015 eins og eðlilegt væri ef ekki væri búið að breyta lögunum um Seðlabankann. Eins og ég sagði áðan er ekki enn búið að breyta þeim lögum, en þó er þessi mikla færsla hér byggð á þeim.

Eins og ég sagði áðan gerir minni hlutinn enn athugasemdir við þær breytingar sem eru gerðar á sjóðstreyminu við 3. umr. og teljum að það þurfi að fara betur yfir þetta mál. Við höfum leitað til Ríkisendurskoðunar sem ekki hefur haft tíma til að setja fram formlegt svar. Það er miður að það skyldi ekki hafa komið fyrir þessa umræðu hér í þingsal, en þegar ríkisreikningur er gerður þarf að fara aftur yfir þetta. Menn verða að vera vissir um hvernig á að færa þessa færslu, færa þá fyrir því rök og vitna í reikningsskilastaðla og sambærilegar færslur hjá öðrum stofnunum.

Ég vil líka nefna færsluna í fjáraukalögunum um 16 milljarða sem var ákveðið að bæta í skuldaniðurgreiðslu á árinu 2014. Þetta hefur áhrif á Íbúðalánasjóð inn í árið 2015. Þegar við fjölluðum í gær um fjárlögin fyrir árið 2015 voru einmitt greidd atkvæði um að 2,4 milljarðar kr. yrðu lagðir inn í Íbúðalánasjóð út af þessari flýtingu.

Ég minni á að skuldaniðurgreiðslan gengur til 28% heimila í landinu. Stór hluti þeirra stendur sem betur fer ágætlega og þarf ekki á aðstoð ríkisins að halda með skuldamál sín. Það er samt sem áður gert og 2,4 milljarðar eru teknir af því svigrúmi sem er á árinu 2015 til að setja í heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið almennt, og skólakerfið vegna þeirrar ákvörðunar að flýta niðurgreiðslunni. Mér finnst mikilvægt að draga þetta fram hér vegna þess að þetta hefur þessi áhrif inn á árið 2015.

Síðan að lokum, virðulegi forseti, vil ég nefna það sem kemur svo skýrt fram í fjáraukalagafrumvarpinu á bls. 61 þegar fjallað er um sjúkratryggingar. Þar stendur skýrum stöfum að á árinu 2015 eigi að semja reglugerð sem geri ráð fyrir því að kostnaður á árinu 2015 vegna samnings sem tók gildi í byrjun árs 2014 yrði borinn uppi af komugjöldum sjúklinga. Þetta stendur skýrum stöfum á bls. 61 í frumvarpinu og staðfestir það að í það minnsta 1,1 milljarður kr. muni falla á þá sem þurfa á þjónustu sérgreinalækna að halda á árinu 2015. Í ár höfðu gjaldskrár hækkað umtalsvert, um 611 millj. kr., og síðan er gert ráð fyrir að 200 millj. kr. fari í verðlagshækkanir á gjaldskrá. Ég vil líka benda á það að þessar gjaldskrárhækkanir munu hafa áhrif á vísitöluna og þá um leið á verðtryggð húsnæðislán.

Ég læt þessari umfjöllun við 3. umr. fjáraukalaga lokið að sinni.