144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Við höfum hér lengi hausts, að segja má, rætt fjárlagafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar og sömuleiðis ýmiss konar frumvörp sem þeim tengjast. Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem tengist því, hluti af þeim tekjupakka sem ríkisstjórnin hefur verið að hringla með til þess að láta ríma við fjárlagafrumvarpið. Það er í þessum umræðum sem yfirleitt speglast þær átakalínur sem eru á millum stjórnmálaflokka og sýna mismunandi afstöðu þeirra. Þess vegna er ekkert skrýtið að þessar umræður verði oft og tíðum ærið harðar.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það fjárlagafrumvarp sem við höfum rætt og reyndar líka þessi tekjufrumvörp birti mjög skýra átakalínu á millum ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Mér sýnist að það hafi tekist þokkaleg samstaða með stjórnarandstöðunni og öllum flokkum hennar um að reyna að beita þeim bata sem sannarlega gætir í samfélaginu nú um stundir til að jafna kjör og styrkja stöðu þeirra sem bera lítið eða minnst úr býtum. Á hinn bóginn þykir mér sem það sé allt of sterkt og ríkjandi hjá hæstv. ríkisstjórn, einkum þeim sem halda þar um valdataumana, að notfæra sér þennan bata til þess fremur að styrkja stoðir þeirra sem hafa það hvað best í þessu samfélagi.

Það er ekki hægt, herra forseti, að ræða hér um breytingar á virðisaukaskattskerfinu án þess að gera það fyrst að umræðuefni að áhersluatriði og forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar birtast í því að frá því að hún tók við völdum er búið að draga fjórum sinnum úr veiðileyfagjöldum á stórútgerðina og sömuleiðis var það eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að fella niður auðlegðarskattinn. Í þessu birtist pólitískur forgangur. Þetta eru mjög skýrar pólitískar áherslur og má segja að það sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að gera sé að mótmæla þessu og reyna að vinna gegn því. Ástæðan er sú að þarna eru miklir tekjustraumar sem ríkið er að vísa frá sér sem við hefðum viljað nota til þess að fara aðrar leiðir til að bæta þetta samfélag.

Með hvaða hætti er síðan greitt fyrir þetta, herra forseti? Ja, við sjáum það nákvæmlega í því frumvarpi sem hér er verið að ræða. Þar kemur algjörlega skýrt fram að partur af tekjunum sem á að sækja til þess að standa á móti því að lækka veiðileyfagjöld og fella niður auðlegðarskatt er matarskattur. Það er verið að hækka matarskattinn. Nú er hægt að fara fögrum orðum um þann góða ásetning hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að einfalda kerfið. Það er sjálfsagt að hjálpa honum til þess, fækka undanþágum og breikka stofnana, en ég er ekki til viðræðu um að gera það með því að láta það fólk sem ber minnst úr býtum bera þyngri bagga en áður. Það er það sem gerist með þessu frumvarpi. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn stjórnarliðsins að koma hér upp og benda á að á sama tíma sé verið að afnema vörugjöld sem leiði til þess að það er hægt að kaupa tiltekna neysluhluta ódýrar en áður. Það er sérstök aðgerð. Ég hef alltaf sagt að ég styðji hana en ég get ekki fallist á að hún tengist því að á hinn vænginn séu menn að auka gjöld á þá sem standa höllustum fæti í þessu samfélagi með því að hækka verð á matvælum og brýnustu lífsnauðsynjum. Það er andstætt lífsskoðun minni og stefnu. Fyrir henni slæst ég.

Í stjórnmálum skiptir máli að menn séu samkvæmir sjálfum sér. Það skiptir máli að menn fylgi þeirri stefnu sem þeir hafa barist fyrir. Á sínum tíma lagði ég og minn flokkur í stjórnarandstöðu fram frumvarp um að lækka matarskattinn úr 14% niður í 7%. Við börðumst fyrir því vetrum saman, mótuðum þessa stefnu á fyrsta flokksþingi Samfylkingarinnar þar sem við gerðum upp við tiltekna afstöðu sem ýmsir forverar okkar höfðu haft í þessum málum. Það voru ekki allir sammála þessu en þetta varð niðurstaðan. Mér er heldur engin launung á því að þessi stefna var ekki hvað síst mótuð í samtölum yfir þennan ræðustól við þingmenn Framsóknarflokksins þá um stundir. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin voru algjörlega samstiga um að halda verði á brýnustu lífsnauðsynjum sem lægstu. Flokkarnir tveir héldu saman um þetta ræður og má segja að með því hafi hér ofist fram strengur sem upphaflega var spunninn í árdaga beggja hreyfinganna þegar sami maðurinn skrifaði stefnuskrá flokkanna beggja, eitt af mínum átrúnaðargoðum úr stjórnmálum, sérstaklega af okkar væng félagshyggjunnar, Jónas frá Hriflu. Svona langt aftur teygir þetta sig.

Því segi ég þetta, herra forseti, að við okkur blasir, þegar við stöndum í þessari umræðu, að þegar til hennar var gengið í upphafi hausts taldi ég, og hafði ærin rök fyrir því, að þessi gamli stuðningur Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins, vinstri manna og félagshyggjuarmsins í samfélaginu, hefði þarna sömu afstöðu. Þá var ég ekki að vísa til sögunnar, það var ekki bara hún sem gaf mér ærna ástæðu til að ætla þetta heldur hitt að hér höfðu ekki einn og ekki tveir heldur að ég hygg einir níu þingmenn Framsóknarflokksins stigið fram fyrir skjöldu í þessum sal og fjölmiðlum og lýst því yfir að þeir væru, alveg eins og pólitískir áar þeirra, því algjörlega andstæðir að virðisaukaskatturinn yrði hækkaður. Sumir framsóknarmenn gengu svo langt að segja að matarskatturinn yrði aldrei hækkaður á meðan hríslaðist blóð um þeirra æðar.

Í dag erum við í þeirri stöðu að svo virðist sem búið sé að láta Framsóknarflokkinn kokgleypa þetta. Sjálfstæðisflokknum, sem hefur haft þessa stefnu lengi og er að því leytinu til samkvæmur sjálfum sér, virðist hafa tekist að knýja Framsóknarflokkinn niður á hné og láta hann kokgleypa hækkun á matarskattinum. Þetta finnast mér voðaleg tíðindi, í fyrsta lagi vegna þess að þetta eru svik við sögu Framsóknarflokksins, framin af þingmönnum flokksins, og í öðru lagi vegna þess að þetta er ekki í takti við þá félagshyggju sem Framsóknarflokkurinn hefur alltaf sagst fylgja fram. Í þriðja lagi, og það finnst mér kannski nöturlegast, er að fjölmargir félagar mínir úr þessum sal, hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sögðu annað.

Kem ég þá að upphafi minnar ræðu; menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér í stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn er það í þessu efni, hann hefur sagt þetta mörgum sinnum. Hann hefur mörg seinni ár haldið því fram að þetta væri heppilegt að gera til að einfalda kerfið. Ég kem svo síðar að því í ræðu minni að ég tel ekki sterk rök fyrir því.

Við í Samfylkingunni höfum verið samkvæm okkur sjálfum. Við lögðum þetta til árið 2003 og það var síðan samþykkt 2007. En það er bara einn flokkur sem ekki hefur verið samkvæmur sjálfum sér í þessu máli og það er Framsóknarflokkurinn. Við sjáum líka að á honum sannast hin gömlu orð Biblíunnar, að menn uppskera eins og þeir sá. Framsóknarflokkurinn vann hér einhvern glæsilegasta sigur sem nokkur stjórnmálahreyfing hefur unnið á seinni árum. Hann kom sigurreifur út úr síðustu kosningum með 24,5%. Og hvernig er staða hans í dag? Það er ekki hægt annað en að gera það að umræðuefni þegar við erum að fjalla um þetta mál vegna þess að þarna sjáum við hið fræga samhengi orsaka og afleiðinga. Framsóknarflokkurinn er í dag ekki blóðrisa bara upp að hnjám heldur upp á herðablöð. Hann er eini flokkurinn sem hefur, a.m.k. í sögu síðustu áratuga, náð þeim sérkennilega árangri að hafa á innan við tveimur árum tapað 60% af fylgi sínu. Og af hverju er það? Af hverju hefur fólk tapað trú á Framsóknarflokknum? Það er vegna þess að það skynjar þetta mikla misræmi sem verður á milli orða og athafna og það er í því andrúmslofti sem við búum við, þar sem fólk kallar eftir trausti, vill fá tækifæri til að treysta stjórnmálamönnum, sem þetta er svo afdrifaríkt. Ég get svo trúað hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir því að mér finnast þeir vera harðir við framsóknarmenn. Mér finnast þeir vera virkilega harðir þegar þeir knýja þá til uppgjafar í þessu máli og þá kem ég að því sem ég vil gjarnan ræða líka við sjálfstæðismenn. Þeir halda því fram að þetta sé einföldun á kerfinu og þess vegna verði framsóknarmenn að ganga undir það jarðarmen að hækka matarskattinn til að einfalda kerfið. En í hverju felst einföldunin? Virðisaukaskattsstigin eru jafn mörg og áður. Það er að vísu rétt að það er búið að fella ýmsar undanþágur undir kerfið en það breytir ekki hinu að það er jafn erfitt eða flókið í framkvæmd og áður. Mér finnast þau rök sem verið er að beita gagnvart framsóknarmönnum heldur aum. Í þeirra sporum hefði ég ekki verið svona yfirmáta vondur við samstarfsflokk minn.

Ég er viss um að hér kemur á eftir hv. þm. Pétur H. Blöndal og spyr hvort ég styðji þá ekki afnám vörugjalda. Til að svara því algjörlega afdráttarlaust geri ég það. En það er ekkert nýtt. Þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum vita að Samfylkingin var fyrsti flokkurinn sem í ríkisstjórn lagði fram þá stefnu að afnema vörugjöld. Á miðju ári 2007, skömmu eftir að við stigum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, lagði þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin Guðni Sigurðsson, fram tillögu um það í ríkisstjórn. Hún var samþykkt og það var ráðist í undirbúning sem var að hálfu lokið, og verið að gera viðeigandi frumvörp sem átti að leggja fram í fullu samráði allra ráðherra þá þegar bankahrunið brast á með öllum sínum skelfilegu afleiðingum. Það varð því ekki. Samfylkingin er líka samkvæm sjálfri sér þegar hún styður afnám vörugjalda.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt að þegar upp er staðið bæti þessar breytingar samanlagt kjör manna. Framsóknarmenn sögðu að þeir mundu tryggja að gerðar yrðu breytingar sem leiddu til þess að þegar allt væri til tekið og hver baun talin væri hægt að sýna fram á að allir bæru með einhverjum hætti meira úr býtum. Það hefur ekki tekist að sýna fram á það. Menn hafa byggt á könnunum, m.a. Hagstofunnar, um einhvers konar meðalneyslu. Ég segi fullum fetum að sú könnun er röng. Það hefur verið sýnt fram á það, m.a. af hálfu ASÍ, að þær tölur sem menn notuðu til að reikna út að allir kæmu betur út standast ekki. Hagstofan sagði að matvæli, drykkjarvörur og það sem við í daglegu tali köllum brýnustu lífsnauðsynjar tækju til sín 16% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Það kann að vera hárrétt að því er meðaltalið varðar en það er allt öðruvísi ef maður skoðar þetta eftir tekjutíundum. Þá blasir við að þeir sem eru í lægstu tekjutíundinni borga nánast tvöfalt hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum en þeir sem eru í hæstu tekjutíundinni. Af því leiðir, herra forseti, að hækkun matarskattsins leggst hlutfallslega þyngra á herðar þeirra en annarra.

Þá er á móti teflt þeim rökum að menn fái eigi að síður nokkrar bætur út úr því að þeir geti keypt sér ýmsar vörur eins og ísskápa, frystiskápa og flatskjái án vörugjalda. En raunhagkerfið virkar ekki þannig og það vitum við öll sem einhvern tímann höfum verið ung og blönk, við vitum að þeir sem hafa mjög lítið milli handanna fara ekki út í búð og kaupa sér nýjar vörur af þessum toga. Þeir gera vafalítið eins og við hæstv. forseti á sínum tíma, þegar hann var ungur námsmaður í Vesturbænum, við fáum slíkar vörur hjá ættingjum okkar, ýmist gefins eða á lágu verði. Í dag fá menn þetta á mjög bærilegu verði á bland.is og ýmsum síðum þar sem menn geta miðlað og fengið með þessum hætti. Þetta er veruleikinn í dag. Það er ekki hægt að segja að fólkið sem er að ræsta á Landspítalanum fyrir 214 þús. kr. á mánuði geti notfært sér það að fara út í búð allt í einu og kaupa sér flatskjá á 200 þús. kr. sem ber engin vörugjöld. Fólkið á þessum lágu tekjum getur einfaldlega ekki veitt sér það að endurnýja flatskjáinn eða ísskápana sína eða frystiskápana með þessum hætti. Það er ekki raunhagkerfið. Þær tölur sem hafa verið lagðar fram af meiri hlutanum standast því einfaldlega ekki próf veruleikans.

Skoðum svo aðeins afstöðu Sjálfstæðisflokksins sem talar um að hann vilji einfalda og bæta virðisaukaskattskerfið með því að fækka þrepunum og fella burt undanþágur. Gott og vel, ég vil hjálpa hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þeim efnum. Nú vill svo til að í þessari umræðu kom líka boð um aðstoð frá öðrum hv. þingmanni stjórnarandstöðunnar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, sem benti á að ef menn á annað borð ætluðu að fara að klippa burt allar undanþágur og þekja kerfið yfir hvaðeina ættu menn að bera niður í sjávarútvegi og láta virðisaukaskattskerfið ná yfir leigu og sölu á kvóta. Og af því að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur gott hjartalag eins og flestir Súgfirðingar og Vestfirðingar, eins og ég þekki mætavel, var hún nokkuð örlát í sinni tillögu og miklu örlátari en ég hefði verið. Hún sagði: Af hverju byrjum við ekki á því að láta þetta tvennt fylgjast að, láta virðisaukaskattinn sem stórútgerðin þarf að borga af verslun með kvóta standast á við þá prósentutölu sem matarskatturinn er? Ég er til í það. Ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér verða þeir einfaldlega að skoða svona hluti. Ef við ætlum að hækka matarskatt á þessu þingi, hvernig í ósköpunum stendur þá á því að þingið setur ekki virðisaukaskatt líka á laxveiðileyfi fyrir utan kvótaverslunina? Mér finnst skorta mikið upp á að Sjálfstæðisflokkurinn sé samkvæmur sjálfum sér.

Að lokum, herra forseti, er auðvitað fjári aumt að á sama tíma og þetta er gert telji menn sér það til tekna að þeir hafi afnumið hinn svokallaða sykurskatt. Þá blasir við að á sama tímanum og verið er að hækka verð á brýnustu lífsnauðsynjum er líka verið að beina mönnum yfir í óhollustu. Og af því að hér gekk í salinn hinn svinni hv. þm. Frosti Sigurjónsson, þá var það hann sem af snilld síns huga, því að hann er hér með allra tölugleggstu mönnum, setti fram hugmyndir um að með því að viðhalda sykurskattinum væri hægt á 20 árum að nota hann til að byggja nýjan Landspítala. Þessi hv. þingmaður, Frosti Sigurjónsson, og einn annar lýstu efasemdum um afnám sykurskattsins. Ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli, brosir og er glaður með það að hafa í ræðustól fundið sér óvæntan stuðningsmann — en hvar var sú samkvæmni þegar kom að atkvæðagreiðslunni eða er þegar kemur að henni hér á eftir? Mun þá hv. þingmaður standa með mér og vilja viðhalda sykurskattinum? Mig minnir að hv. þingmaður hafi sagt í þingræðu að það væri hægt að lækka efra þrep virðisaukans um 0,5% með því að halda sykurskattinum. Mér reiknast svo til að það gætu þá verið 2,5–3 milljarðar. Þetta er gríðarlegt fé og ég spyr hv. þingmann: Af hverju viðhöldum við ekki frekar sykurskattinum og sleppum því að hækka matarskattinn? Þá yrðu allir glaðir, ég, hv. þingmaður og það sem mestu skipti, það mundi gleðja ýmsa pólitíska áa Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) og þar nefni ég helstan Jónas frá Hriflu sem á að vera (Forseti hringir.) átrúnaðargoð hv. þingmanns eins og annarra góðra þingmanna Framsóknarflokksins.