144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að áfengi, tóbak og sykur eru líklega ástæðurnar fyrir mestu útgjöldum heilbrigðiskerfisins í dag. Við höfum tekið þátt í því hér á síðustu áratugum að hækka gjöld á áfengi og tóbak af tvennum ástæðum, vissulega til þess að gera það sem hv. þingmaður er mótfallinn, að reyna að stýra neyslunni frá þeim, en í öðru lagi hefur líka sú röksemd verið uppi að gera það einmitt vegna þess að menn neyta þessa varnings vitandi vits um að það hefur í för með sér skaðleg áhrif á heilsu þeirra og líka útgjöld fyrir ríkið. Það er talið réttlæta það að láta neytendurna greiða hærra verð en ella, m.a. til þess að standa straum af kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson fór með nokkuð laglega röksemdafærslu fyrr í þessari umræðu þar sem hann reifaði þá skoðun sína að það væri að minnsta kosti einnar messu virði að hafa sykurskattinn háan, þess vegna í efra þrepinu, beinlínis til þess að afla tekna til að koma til móts við kostnað heilbrigðiskerfisins vegna þessa. Er það ekki algjörlega sjálfsagt? Er það ekki í samræmi við þá stefnu sem mér hefur oft þótt gæta hjá hv. þingmanni að menn taki ábyrgð á sjálfum sér og greiði fyrir þann skaða sem þeir hugsanlega meðvitað valda sjálfum sér og hinni félagslegu heild með þessu? Það er að minnsta kosti vel þess virði að ræða þá röksemdafærslu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það liggi bara ekki alveg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin hafa í hyggju áður en kjörtímabilinu sleppir að hækka aftur virðisaukaskattsþrepið hið lægra og nú upp í 14%. Getur hv. þingmaður upplýst mig um það?