144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða en ég er líka eiginlega svolítið ringlaður í henni. Ég veit ekki alveg hvort það lýsir einhverri sérstakri trú á fólk að fullyrða að verð hluta hafi engin áhrif á hegðun þess. Er fólk sem sagt ekkert að spá í peninga, kaupir það bara það sem því sýnist? Hefur verð engin áhrif? Ef fólk kemst til dæmis að þeirri niðurstöðu að rafbílar séu ódýrari — það vill svo til að þeir eru umhverfisvænni þannig að það væri gott ef við mundum skipta yfir í rafbíla — og ef við hefðum stjórnvaldsstefnu, sem menn ætla reyndar að hverfa frá, þannig að rafbílar væru gerðir ódýrari en bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti, mundi það ekki hafa nein áhrif? Og hvaða trú er það á mannskepnuna að umhverfisvænni kostur og ódýrari kostur væri ekki álitinn betri kostur? Hvaða hugmynd hefur hv. þingmaður um stjórnvaldið í þessu? Ég skil ekki alveg hvernig lýðheilsustefna á að líta út af sjónarhóli hv. þingmanns vegna þess að ég sé ekki að þetta séu andstæður, fræðsla og merkingar annars vegar og hins vegar verðlagning. Eru þetta einhverjar andstæður? Við í Bjartri framtíð höfum lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur um að það þurfi að bæta merkingar á matvælum. Ég hef alltaf upplifað það þannig að í lýðheilsustefnu fari þetta saman. Í tóbakinu er fræðsla og það eru merkingar, það fer ekkert á milli mála þegar keyptur er pakki með tóbaki. Þar standa alls konar upplýsingar um hvaða afleiðingar neysla þess getur haft. Tóbakið er meira að segja falið í búðum. Það er lagasetning um það. Það eru margþættar aðgerðir sem er gripið til.

Viðbættur sykur er heilsufarsógn, viðbættur, ekki allur sykur, sá sem er bætt í matvæli. Neytendur vita (Forseti hringir.) ekki af því. Hvernig lítur lýðheilsustefna út af (Forseti hringir.) sjónarhóli hv. þingmanns hvað þetta varðar?