144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um annað af tveimur tekjuöflunarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar, þ.e. um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og brottfall laga um vörugjald. Að mínu mati er ómögulegt að ræða þessi mál alveg einangrað og án vísunar í hið stóra frumvarp ríkisstjórnarinnar, þ.e. fjárlagafrumvarpið sjálft, sem við höfum nú séð hvernig er að dragast upp. Allar stóru myndirnar ættu að vera komnar eftir lok 2. umr. og atkvæðagreiðslu í gær. Þar er annars vegar útgjaldahliðin og það hvernig ríkisstjórnin ætlar að deila fé úr sameiginlegum sjóðum okkar og hins vegar tekjuöflunin sem og ýmsar forsendur fjárlaga.

Hér hefur verið nefnt hvað varðar tekjuöflunina að hæstv. ríkisstjórn er að afsala sér gríðarmiklum tekjum, annars vegar með lækkun á veiðileyfagjöldum og hins vegar með því að ætla ekki að framlengja auðlegðarskatt. Þetta hefur í för með sér minni skatttekjur og þá aftur minna til að deila út í okkar sameiginlegu sjóði. Niðurstaðan verður, eins og sést í fjárlagafrumvarpinu, að auknar álögur leggjast á almenning í landinu með ýmsum hætti. Samanlagt mynda þessi frumvörp rammann um það hvernig við ætlum að reka samfélagið okkar og því miður tel ég þau ekki boða góðar breytingar á íslensku samfélagi þegar litið er á stóru myndina. Þvert á móti tel ég þessi frumvörp til þess fallin að veikja velferðarsamfélagið okkar og auka á stéttaskiptingu í samfélaginu með því að draga skýrari línur á milli þeirra sem eiga peninga og geta þar með leyft sér ýmislegt og svo hinna sem lifa við mjög kröpp kjör og geta ekki leyft sér annað en brýnustu nauðsynjar.

Það eru nokkur atriði í þessu frumvarpi sem mig langar að draga sérstaklega út vegna þess að ég tel þau hafa þau áhrif að leiða til aukinnar misskiptingar í samfélaginu. Þar ber fyrst að nefna hækkun á viðaukaskatti á mat úr 7% í 11%. Reyndar stóð til að hækkunin yrði í 12%. Það var fallið frá því en að mínu mati er ekki neinn eðlismunur á því hvort við hækkum virðisaukaskatt á matvæli í 11% eða 12%. Hækkunin mun eftir sem áður leggjast þyngst á þá sem hafa lægstu tekjurnar og verja stærstum hluta af ráðstöfunartekjum sínum til matarinnkaupa. Upplýsingar og greiningar, m.a. frá Stofnun um fjármálalæsi, ASÍ og BSRB, hafa sýnt fram á að þeir sem hafa minnst á milli handanna verja hlutfallslega stærri hluta af tekjum sínum í mat en þeir sem hafa hærri tekjur.

Mér finnst þetta gríðarlegt áhyggjuefni vegna þess að það eru hópar í íslensku samfélagi sem nú í dag ná ekki endum saman, eiga ekki peninga til þess að kaupa mat út mánuðinn og hafa þurft að reiða sig á matargjafir ýmissa góðgerðarstofnana. Ég held að þetta verði til þess að gera þessum hópi enn erfiðara fyrir. Það að taka skref í þá átt að gera stöðu tekjulágra þegar kemur að matarinnkaupum enn erfiðari finnst mér alveg kolrangt skref.

Annað sem ég vil nefna er hækkun á virðisaukaskatti á menningu. Þar hefur mest verið talað um hækkun á virðisaukaskatti á bækur. Bókaútgefendur hafa bent á að þetta muni gera bókaútgáfu á okkar litla málsvæði enn erfiðari en nú er og þeir svartsýnustu hafa hreinlega áhyggjur af því að bókaútgáfa geti dregist verulega saman, ef ekki bara nánast lagst af. Þetta tel ég áhyggjuefni út af fyrir sig. Svo eru þau áhrif sem hækkun á virðisaukaskatti muni hafa á verðlag á bókum og annarri menningu. Hér tel ég aftur að þá dragi í sundur með þeim sem hafa ágætar tekjur og geta leyft sér að kaupa bækur eða njóta annarrar menningar og hinum sem eru tekjulágir og geta ekki leyft sér neitt annað en brýnustu nauðsynjar.

Þetta held ég til dæmis að skipti mjög miklu máli fyrir það umhverfi sem börn alast upp í. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem börn tekjulágs fólks fá síður bækur og geta síður notið menningar vegna þess að það er hreinlega of dýrt. Ég verð að segja að mér finnst allt tal um að leggja áherslu á læsi og mikilvægi þess að við aukum læsi og svo það að ætla að hækka virðisaukaskatt á bækur vera í algjörri mótsögn. Í ljósi þess sem ég sagði áðan ætla ég rétt að vona að við stefnum ekki að því að skapa þannig samfélag að læsi verði nánast forréttindi þeirra sem hafa meiri tekjur vegna þess að þeir geta keypt sér bækur meðan hinir efnaminni geta ekki leyft sér það. Mér líst engan veginn á þessa fyrirhuguðu hækkun á virðisaukaskatti svo það sé bara sagt alveg skýrt.

Hins vegar er í þessu frumvarpi að finna mótvægisaðgerðir sem eiga þá að koma til móts við breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Þar er meðal annars talað um að vörugjald verði felld niður. Ég skal ekki segja um það, það kann vel að vera að það sé rétt að fella niður vörugjald á ýmsum vörum. Það breytir ekki því að ýmsar þær vörur sem á að fella niður vörugjald af eru vörur sem eru vissulega dýrar en flestir kaupa mjög sjaldan og eru þess vegna ekki partur af hinni daglegu neyslu. Má nefna sem dæmi vörur eins og flatskjái, ísskápa og þvottavélar. Jú, það er alveg rétt, þetta eru vörur sem eru til á velflestum heimilum. Ég tek bara mitt eigið heimili sem dæmi sem er eða var til skamms tíma einhvers staðar rétt fyrir neðan meðallag, ég veit ekki alveg, en við höfum keypt okkur ísskáp á 10–15 ára fresti. Hið sama gildir um sjónvarp, það hefur enst í sjö ár. Hins vegar kaupum við mat á hverjum degi þannig að ég get ekki séð að þetta muni koma inn sem mótvægi við hækkun á virðisaukaskatti á mat, einfaldlega vegna þess að maður kaupir þessar stærri vörur mjög sjaldan. Það er hægt að fresta því að kaupa þær vörur þó að þær séu nauðsynlegar og það er hægt að kaupa þær notaðar mun ódýrari. Við getum hins vegar ekki keypt notaðan mat.

Einnig á að fella niður vörugjald á sykri, þ.e. það sem talað hefur verið um sem niðurfellingu á sykurskatti. Ég held að hér séum við á kolrangri braut því að eins og bent hefur verið á er út frá lýðheilsusjónarmiði mjög slæmt að á sama tíma og við ætlum að hækka virðisaukaskattinn á því sem er hollt ætlum við að fella niður skattinn af því sem er óhollt. Enn og aftur komum við að þeim áhrifum sem þetta hefur á tekjulágt fólk. Hér eru lagðar til breytingar sem stuðla að því að efnalitlu fólki verður í raun stýrt óbeint í það að kaupa óhollari matvæli vegna þess að þau verða ódýrari. Í mínum huga á það alls ekki að vera munaður að borða hollan mat.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði í ræðu sinni áðan að einstaklingurinn eigi að ráða hvað hann borðar. Ég er í grófum dráttum alveg sammála því. Hv. þingmaður sagðist einnig vera á móti því að stýra neyslu fólks með sköttum. Ég fæ ekki betur séð en að það sé nákvæmlega það sem við ætlum að gera með þessu, ekki við heldur að hæstv. ríkisstjórn sem leggur þetta frumvarp fram sé beinlínis að gera það, hún sé að stýra neyslu fólks. Enn og aftur, sumir í samfélaginu eru hreinlega ekki í þeirri stöðu að geta valið algerlega frjálst hvað þeir kaupa, heldur verða að úthugsa innkaup sín og haga þeim í samræmi við budduna. Fólk gerir það ekki vegna þess að það velur að gera það heldur einfaldlega vegna þess að það hefur ekki peninga til að gera annað. Ég sé því ekki betur en að hér séum við þess vegna í rauninni að stýra fólki í — (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti spyr hv. þingmann hvort hún sé tilbúin að gera hlé á ræðu sinni þar sem nú stendur til að gera hádegishlé. Einn þingmaður hefur þegar beðið um andsvar og það er ljóst að við náum því ekki innan tímamarka þannig að ef hv. þingmaður væri sátt við að gera hlé á ræðu sinni núna mundi forseti þiggja það.)

Sjálfsagt mál. Er ekki bara viðeigandi þar sem við erum að tala um skatt á matvælum að gera matarhlé?