144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki tölfræði um það hvað lítil börn horfa mikið á sjónvarp en af reynslu minni sem afi hef ég séð að þau horfa mjög mikið á sjónvarp, pínulítil börn. Þar eru textar og þar er töluð enska og á furðulega stuttum tíma hafa þessi börn lært ekki bara að lesa heldur líka ensku.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að hann er dálítið mikið upptekinn af fátækt og fátæku fólki og með réttu, hvort hann sé ekki sammála því að það þurfi að laga tölfræðina þar sem námslánin koma inn sem skuld og ekki sem ráðstöfun hjá heimilum og skekkja alla tölfræði. Er ekki nauðsynlegt að taka námslánin inn sem ráðstöfunartekjur þannig að við finnum þá sem raunverulega eru fátækir í þjóðfélaginu? Það er mjög erfitt að gera það þegar námsmenn fá 16 milljarða lánaða og eru 12 þús. manns, um 8% þjóðarinnar, og skekkja alla tölfræðina.