144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Tryggingagjaldið mun lækka um áramótin. Það var ákvörðun sem við tókum í fyrra. Við þurfum ekkert að taka hana aftur núna. Svo mun það lækka aftur eftir ár um samtals tæpa 5 milljarða þegar upp er staðið. Vonandi getum við gert meira en við ákváðum að gera í fyrra áður en kjörtímabilið er úti vegna þess að það er mikilvægt að lækka tryggingagjaldið, m.a. um leið og atvinnuleysi lækkar.

Samhliða minna atvinnuleysi verður tilefni til þess að spyrja sig hvort það sé eðlilegt að við séum með þriggja ára atvinnuleysisbótatímabil. Mér finnst full ástæða til að stíga það skref sem hér er lagt til, að stytta atvinnuleysisbótatímabilið um hálft ár. Við erum með mun lengra atvinnuleysisbótatímabil en víðast þekkist annars staðar. Við erum með gríðarlega hátt atvinnustig um þessar mundir.

Aðrar breytingar sem fylgja þessu frumvarpi eru að uppistöðu til eðlilegar og árlegar breytingar á ýmsum forsendum (Forseti hringir.) tekjumála ríkisins.