144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:10]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Segja má að ég komi hér upp til að ræða sama málið með mjög stuttu millibili. Ég vil byrja á því að þakka meiri hluta velferðarnefndar kærlega fyrir að hafa tekið ákvörðun um að leggja fram þetta frumvarp þannig að við getum tryggt að það taki gildi fyrir áramót.

Eins og fram kom er ljóst að framkvæmd laga nr. 106/2011, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem samþykkt voru í september 2011 og komu tímabundið í veg fyrir víxlverkanir, er mjög kostnaðarsöm og mundi kostnaður ríkissjóðs af framlengingu á gildistíma lagaákvæðanna verða gríðarlega mikill. Skýrist það einkum af því að sú reikniregla sem notuð var um framkvæmd lagaákvæðisins leiddi til þess að frítekjumark tekjutryggingar og heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega varð umtalsvert hærri á gildistíma lagaákvæðanna en frítekjumörk samkvæmt almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð hefðu ella leitt til.

Vegna óvissu um hvort nægar fjárheimildir væru til að mæta þeim auknu útgjöldum sem hlytust af beinni framlengingu lagaákvæðisins skipaði ég starfshóp til að greina hvaða leiðir væru mögulegar til skemmri tíma þegar gildistími lagaákvæðanna væri útrunninn, en eins og fram kom í framsöguræðunni hefur ákvæðið fallið úr gildi. Starfshópurinn lagðist yfir þetta flókna verkefni og skilaði niðurstöðum í skýrslu fyrr á þessu ári þar sem nefndar voru tilteknar leiðir m.a. til að fyrirbyggja að víxlverkun hæfist að nýju.

Ein þeirra leiða sem starfshópurinn lagði fram til skoðunar felur það í sér að gagnvart hverjum og einum örorkulífeyrisþega verði gerður samanburður á þeim fjárhæðum sem hann nyti miðað við frítekjumörk og skerðingarhlutföll ársins 2013. Er það samkvæmt þeim sérreglum sem leiða má af framkvæmd lagaákvæðisins ásamt 3,6% bótahækkun sem varð um síðustu áramót og hins vegar fjárhæðum miðað við almennar reglur ársins 2014.

Samanburður á þessum reglum mun fara fram í endurreikningi bóta í ágúst 2015 vegna greiðslna ársins 2014 og verður þeim útreikningi beitt sem hagstæðari er fyrir hvern og einn örorkulífeyrisþega.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sú leið sem ég hef nú lýst í stuttu máli verði lögfest. Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir samanburði á útreikningi tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á árinu 2014, en í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sams konar reglu er varðar heimilisuppbót, en víxlverkunin nær til þessara tveggja bótaflokka. Þá er gert ráð fyrir því í 3. gr. að lífeyrissjóðum verði á árinu 2014 áfram óheimilt að láta almennar hækkanir sem kunna verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins munu þær reglur sem ég hef útlistað hér, þ.e. sérreglur ársins 2013, koma betur út fyrir þá örorkulífeyrisþega sem hafa lífeyrissjóðstekjur á bilinu 27.400 kr. til 261.924 kr. á árinu 2014. Fyrir þá örorkulífeyrisþega sem hafa lífeyrissjóðstekjur sem eru undir frítekjumarkinu, sem er 27.400 kr. á mánuði, skiptir ekki máli hvorri reglunni er beitt þar sem lífeyrissjóðstekjur þeirra hafa ekki áhrif á greiðslu tekjutryggingar eða heimilisuppbótar. Þeir sem hafa lífeyrissjóðstekjur yfir 261.924 kr. munu aftur á móti fá greitt samkvæmt almennum reglum ársins 2014, en þær reglur koma betur út fyrir þann hóp.

Verði frumvarp þetta að lögum mun breytingin því hlífa tekjulágum lífeyrisþegum við afleiðingum þess að lagaákvæðið er útrunnið. Ég lagði mikla áherslu á að svo yrði.

Nefndin hefur fjallað um málið í tengslum við almannatryggingafrumvarpið og tekið þá ákvörðun að flytja þetta frumvarp. Ýmsar spurningar vöknuðu við vinnslu málsins. Til þess að svara þeim hér þá væri kostnaðurinn við það að framlengja ákvæðið óbreytt hærri en hér er verið að leggja til, eins og kom svo sem fram í andsvari hv. þm. Helga Hjörvars. Ef bráðabirgðaákvæðið væri framlengt óbreytt mundi hið sérstaka frítekjumark sem myndast við framkvæmd þess halda áfram að hækka. Gert er ráð fyrir að nettó útgjaldaauki ríkissjóðs vegna þess yrði á bilinu 1–1,1 milljarður kr. Þeir fjármunir voru einfaldlega ekki fyrir hendi. Því var reynt að leita annarra og ódýrari leiða til að koma í veg fyrir að víxlverkanir hæfust að nýju. Þar vildi ég horfa sérstaklega til þeirra sem eru með lægstu tekjurnar í almannatryggingakerfinu.

Von okkar var sú að þegar þessu yrði komið á mundi liggja fyrir niðurstaða varðandi breytingar á almannatryggingum og búið væri að finna varanlega lausn á málinu. Sú lausn hafði ekki birst í vinnu svokallaðrar Árnanefndar eða í því frumvarpi sem kom frá fyrrverandi velferðarráðherra, en unnið er að því í nefnd, eins og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir fór yfir, sem hv. þm. Pétur Blöndal stýrir varðandi endurskoðun almannatryggingakerfisins þar sem verið er að skoða möguleikana á því að taka upp starfsgetumat í stað núgildandi örorkumats. Enn hefur ekki náðst samkomulag í nefndinni um hvaða leið skuli fara í þeim efnum. Ég leyfi mér þó að vera bjartsýn og vonast til þess að við munum sjá niðurstöðu þeirrar vinnu fljótlega eftir áramótin.

Verði tekið upp nýtt starfsgetumat, eins og ég hef lagt áherslu á, mun það leiða til þess að það greiðslukerfi sem við búum við í dag verður stokkað upp og að öllum líkindum fundnar lausnir til framtíðar varðandi samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða. Ég geri ráð fyrir því að í nefndinni verði allt kapp lagt á að finna framtíðarlausn á þessu vandamáli.

Þegar Öryrkjabandalagið tók þetta mál upp við mig af því þeir höfðu áhyggjur af því að lagaákvæðið væri að detta upp fyrir, lögðu þeir til tvær leiðir; annars vegar einfaldlega að banna lífeyrissjóðum að skerða á grundvelli greiðslna frá almannatryggingum og hins vegar að framlengja ákvæðið óbreytt. Þessar leiðir voru skoðaðar af starfshópnum, en eins og ég nefndi sáum við ekki fram á að við gætum unnið með aðra upphæð en þá sem var við fyrra ákvæðið.

Óhætt er að fullyrða að þær hugmyndir að gera lífeyrissjóðum óheimilt að líta til greiðslna almannatrygginga við tekjuathugun vegna lífeyrisgreiðslna, sem er sambærileg þeirri hugmynd sem hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi í andsvari sínu, vakti ekki mikla kátínu hjá lífeyrissjóðunum. Ég get hins vegar alveg sagt það hér að það hefði kannski verið sú leið sem mér hefði hugnast best. Hins vegar voru færð rök fyrir því að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna með þunga örorkubyrði mundi versna með þeim afleiðingum að þeir sjóðir skerða réttindi sjóðfélaga sinna. Við höfum nú heyrt viðbrögðin í þinginu varðandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna og þá miklu samúð sem stjórnarandstaðan virðist hafa gagnvart þeim málflutningi. Þess ber að geta að þessi leið mundi að þeirra mati í einhverjum tilvikum leiða til þess að tekjur viðkomandi lífeyrisþega yrðu töluvert hærri en þær tekjur sem hann hafði fyrir orkutapið, eins og alltaf er rætt um, og það gæti leitt til þess að minni hvati verði til endurhæfingar sem gæti, þegar upp er staðið, orðið kostnaðarsamara bæði fyrir ríkissjóð og lífeyrissjóðina.

Ég tel ástæðu til þess að fara betur yfir þá röksemdafærslu vegna þess að ég hef ákveðnar efasemdir um að þetta muni raunverulega leiða til minni hvata til endurhæfingar. Ég held að það sé alveg hægt að koma hér upp kerfi þar sem eru jákvæðir hvatar til endurhæfingar. Við höfum líka séð það í könnunum meðal öryrkja að það er mikill vilji hjá meginþorra öryrkja að vera virkir á vinnumarkaði og fá störf við hæfi. Haldinn var mjög fjölmennur fundur, sem sprengdi næstum húsnæðið utan af sér, sem sneri að atvinnumálum öryrkja. Það sýnir hversu mikill vilji er meðal öryrkja til að eiga endurkvæmt á vinnumarkaðinn og geta orðið virkir þátttakendur atvinnulífinu.

Ég vildi samt aðeins fara í gegnum þetta hér og svara betur þeim spurningum sem ég veit að vaknað hafa í velferðarnefnd.