144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:21]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar þekkir ágætlega þá höfum við staðið nákvæmlega við það sem lofað var varðandi það að taka til baka þær skerðingar sem hann og félagar hans stóðu fyrir 2009 varðandi almannatryggingarnar. Það hefur leitt til þess að núna á síðustu tveimur árum hafa greiðslur vegna bóta um félagslega aðstoð hækkað um 13% og til lífeyristrygginga um 21% á tveimur árum.

Það er líka mikilvægt að koma því á framfæri að við erum að hækka hér bætur. Ég veit að hv. þingmaður er það vel gefinn að hann skilur það ágætlega. Á þessu ári höfum við hækkað bætur um 3,6%, það eru almennar hækkanir. Við leggjum til að þær verði hækkaðar um 3% á næsta ári, samtals um 6,7%, á meðan verðbólga hækkar um 5% á sama tíma.

Það er því alveg á hreinu að við höfum staðið við það sem við lofuðum. (Gripið fram í.) Ef vilji hefði verið hjá fyrri ríkisstjórn til að tryggja að ákvæðið héldist inni þá hefði það ekki átt að renna út, þá hefðu menn haft það áfram inni, en nú er það runnið út. Við erum að leiðrétta það með þessu og tryggja að þeir fjármunir sem farið hafa í þetta haldi sér.

Eins og ég kom inn á hefði sú leið sem mér hugnaðist best, þurft töluvert meiri skoðun. Miðað við það að stjórnarandstaðan hefur farið hamförum varðandi framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna þá er ég ekki viss um að ég mundi fá mikinn stuðning frá hv. þingmanni til þess að gera það.