144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vonandi fáum við tækifæri til þess að gera upp hvað var staðið við af loforðunum frá því fyrir kosningar, því að mörg af þeim kannast menn ekkert við eftir á og hafa bara sagt: Það átti að jafna við 2009. Í rauninni hafa menn staðið við það, það var gert nákvæmlega það sem fyrri ríkisstjórn var búin að ákveða og ekkert meira. Ég efast ekki um að það séu margir sem vilja gera betur en það hefur því miður ekki tekist og það er verið að fara í öfuga átt í þessu fjárlagafrumvarpi, sérstaklega þegar menn tóku sig til og leyfðu mönnum ekki að fá 3,5% þannig að einhver von væri um að þarna væri leiðrétting á næsta ári.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Við erum hér að tala um víxlverkanir. Ef við framlengjum fyrra ákvæði kostar það ríkissjóð 1,1 millljarð. Ef við förum í þessa nýju tillögu sem er til umræðu kostar það ríkissjóð 500–600 milljónir. Hverjir tapa þessum mismun af öryrkjunum? Hverjir eru það sem fá þá minna en ef við færum í að borga þetta eftir gamla ákvæðinu eða samningnum, framlengdum hann, af því að við erum líka að fara í tímabundna lausn, það á eftir að finna varanlega lausn af hálfu ráðuneytisins?