144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hringlandahátturinn í skattstefnunni er jafn mikill og raun ber vitni hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í þessu efni þá náttúrlega birtist það með ýmsum hætti, m.a. þannig að það eru rangar upplýsingar í fjárlagafrumvarpinu af því þeir skipta um skoðun frá því að þeir setja fjárlagafrumvarpið í prentun og þangað til það kemur úr prentun. Það er ekkert skárra ástandið á stjórnarheimilinu en það.

Þetta um sykurskattinn sem var inni í upphaflegu frumvarpi, það var auðvitað þyngra en tárum tekur að fylgjast með atkvæðagreiðslunni fyrir helgina og sjá þingmenn Framsóknarflokksins pínast og kveljast til þess að taka þátt í þeim vitlausa leiðangri að leggja af skattlagningu á sykur, sem nýtur mikils stuðnings í þingflokki Framsóknarflokksins og margir óbreyttir þingmenn Framsóknarflokksins og jafnvel nefndarformenn hér í þinginu reyndu að berjast gegn og fá að halda inni áfram. Það er auðvitað ekkert annað en heilbrigð skynsemi og almennt viðurkennt sem eitt helsta verkefni manna í stjórnmálum um allan heim að fást við einhvern mesta heilbrigðisvanda sem við er að etja í dag. Að sjálfsögðu er sykurskatturinn nátengdur þeirri umræðu. Í raun og veru er alveg grátlegt að menn skyldu ekki í Framsóknarflokknum hafa styrk til þess að standa af sér þetta áhlaup Sjálfstæðisflokksins fyrst það var í sjálfu fjárlagafrumvarpinu við framlagningu, að það væri ekki dugur í þingmönnum flokksins til þess að knýja það fram að það stæði áfram eins og það væri í frumvarpinu. En, já, jafnvel í þessu atriði fylgdu þeir í fótspor Sjálfstæðisflokksins eins og leiðitamir — ja, ég vil ekki hafa fleiri orð um það.