144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi réttilega að ýmsir stjórnarliðar hefðu reynt, og reyndar hafði hæstv. fjármálaráðherra tilburði í þá átt við 1. umr., að skjóta sér á bak við skýrslu og ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um afnám sykurskattsins eða brottfall hans, þá er náttúrlega rétt að upplýsa, eins og reyndar er gert í nefndaráliti minni hlutans, að sú skýrsla rennir engum stoðum undir það, engum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býður upp á tvo kosti í þeim efnum og segir sem svo: Ef menn telja að sykurskatturinn í núverandi mynd sé ekki nógu markviss eða ekki nógu beittur til þess að hafa tilætluð áhrif, að draga úr óhóflegri neyslu á sykri, þá eru tveir kostir í stöðunni. Jú, það er fella hann niður eða hækka hann þannig að hann bíti og nái tilgangi sínum. Og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur enga afstöðu til þess, setur það í hendur íslenskra stjórnvalda að velja hvor leiðin sé farin.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé mjög merkilegt ef upp undir 3 milljarða sérstök skattlagning á þessa vöru hafi engin áhrif. Ég geri ráð fyrir því að ef breytingin sneri í hina áttina þá mundi ekki vanta ræðuhöldin um að þetta væri mikið tilræði við þessa framleiðslu. Svona er þetta. Það skal enginn maður reyna að segja okkur þá draugasögu að þetta sé byggt á ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, því að það er ekki innstæða fyrir því.

Í öðru lagi verð ég að segja að ég saknaði eins í ræðu hv. þingmanns. Hann minntist lítið ef bara nokkuð á Framsóknarflokkinn og útreið hans í þessu máli, og mér finnst það skaði. Nú hefur hv. þingmaður sérhæft sig mjög í sálarlífi framsóknarmanna, heldur oft ræður um væntumþykju sína í garð þess flokks og hlýtur þar af leiðandi að líða önn fyrir það hvernig Framsóknarflokkurinn hefur magalent í þessu máli. Ég vil biðja hv. þingmann að fjalla af sínu djúpa innsæi um það hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn er kjöldreginn með þeim hætti (Forseti hringir.) sem raun ber vitni í þessu máli.