144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tala að sjálfsögðu í sömu andrá um uppbyggingu flugvallar úti á landi eins og uppbyggingu flugvallarins í Keflavík. Við viljum nefnilega stuðla að hvoru um sig, það er verkefni þessarar ríkisstjórnar.

Ég gat ekki annað en minnst á þetta kostulega samtal í ljósi þess að hv. þm. Kristján L. Möller barðist fyrir því að styrkja eignarhluta Isavia til að hægt væri að fá lán frá Norræna fjárfestingarbankanum í þá sömu uppbyggingu, sem er svo harðlega gagnrýnd hér úr ræðustól af tveim flokkssystrum hans.

Mig langar til að spyrja, vegna þess að Samfylkingin virðist vera eini flokkurinn sem gagnrýnir þetta fyrirkomulag: Er allur þingflokkurinn sammála því? Er hv. þm. Kristján L. Möller sammála því að það sé gagnrýnt hér af fulltrúa Samfylkingarinnar að við séum að nota hinn mikla arð, alveg eins og Norðmenn og Finnar gera, til að byggja upp fleiri (Forseti hringir.) gáttir inn í landið, byggja upp minni flugvelli víðs vegar um landið? (Forseti hringir.) Ég bara virkilega trúi ekki að ég sé að hlusta á þetta hérna.