144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það eru tvö mál sem mig langar að koma aðeins inn á.

Í fyrsta lagi varðar það Bankasýslu ríkisins. Ég vil taka undir með því sem kom fram í máli hv. þingmanns um mikilvægi þess, hvort sem það er gert í gegnum Bankasýsluna eða á annan veg, að armslengdarsjónarmiðin séu tryggð. Það er okkur öllum til góða, sama hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, það er gríðarlega mikilvægt. Ég fagna því líka að nægilega mikið fjármagn sé að koma inn í Bankasýsluna þar til þingið hefur fengið til umfjöllunar frumvarp um það sem á að taka við og getur þá metið sjálfstætt hvort þær tillögur eru fullnægjandi, hvort gera þarf á þeim breytingar eða hvort þetta form verður viðhaft áfram.

Hv. þingmaður vakti máls á stöðu Íbúðalánasjóðs, sem vissulega hefur verið mikið til umfjöllunar í nefndinni, enda, eins og kom fram, veitir ríkissjóður talsvert mikið fé og hefur gert á undanförnum árum til sjóðsins, allt frá bankahruninu.

Eins og hv. þingmaður kemur inn á þarf að fást niðurstaða í það hvað á að taka við með Íbúðalánasjóð. Skipaðar hafa verið nefndir og vinna er í gangi til að vinna úr því. Mig langar að spyrja hv. þingmann hver stefna Bjartrar framtíðar sé varðandi Íbúðalánasjóð. Er mikilvægt að við höldum áfram sjóði sambærilegum og Íbúðalánasjóði, sjóði sem styður við landsbyggðina, við þessi félagslegu gildi, eða telur hv. þingmaður að réttlætanlegt sé að leggja niður sjóðinn í núverandi mynd? Hvað vill hv. þingmaður og stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð að taki við þegar Íbúðalánasjóður, í þeirri mynd sem hann er, lýkur starfi sínu?