144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður kom inn á varðandi Bankasýslu ríkisins, að við fáum frumvarpið inn í þingið til meðferðar, sjáum umsagnirnar sem berast og getum þá tekið afstöðu til þess hvort við viljum hafa Bankasýsluna áfram. Það getur vel verið að alþingismenn, allir sem einn, sameinist um það þegar þeir eru búnir að skoða málið. En eins og kom fram á fundinum í gær þá leit það þannig út að búið væri að taka þessa ákvörðun fyrir okkur. Það er ekki gott.

Varðandi Íbúðalánasjóð þá held ég að það sé mjög mikilvægt að eitthvert félagslegt úrræði sé til staðar, að til verði opinbert úrræði, félagslegt úrræði, en í miklu minna umfangi en nú er. Eins man ég eftir að hafa heyrt hæstv. fjármálaráðherra nefna að það gæti verið leið að ef banki ætlar að vera með starfsemi hér á landi og lána íbúðalán fylgi því einhver skilyrði. Staðan sem við horfum fram á núna er sú að við erum með lánasjóð sem fólk vill ekki vera hjá. Það er að greiða upp lánin sín, það er að taka lán hjá bönkunum. Það gengur ekki. Við skattgreiðendur borgum bara með þeim lánum.

Ég held að við séum sammála um að finna þarf úrræði fyrir þá sem eiga ekki séns hjá viðskiptabönkunum, hvort sem það er út af því að þeir búa á afskekktum stöðum — ég hef reyndar aldrei vitað til að meiri afskriftir væru þar en annars staðar — eða eiga erfitt með að fá greiðslumat eða hvernig sem það er. Þetta er flókið mál sem við náum ekki að kryfja hér. Kannski gæti minni félagslegur sjóður haft það úrræði eða að bankarnir yrðu bara að sinna því, það væri hluti af starfsemi þeirra. Við getum skoðað það í sameiningu á næsta ári.