144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skal viðurkennast að sá sem hér stendur var eilítið seinn á fjárlaganefndarfund þegar þessir ágætu gestir komu, vegna þess að fundarboð á fjárlaganefndarfund hafði eitthvað misfarist, það hafði staðið röng tímasetning á heimasíðu Alþingis þannig að ég rétt náði í endinn á fundinum. Hvað því atriði líður sem hv. þingmaður benti á þá vil ég segja að það eru kjarasamningar á næsta ári og það eru mýmörg mál sem hljóta að verða skoðuð í tengslum við þá kjarasamninga. En þó vil ég segja að það er sérstakt fagnaðarefni ef fulltrúar stjórnarandstöðunnar eru farnir að hafa áhyggjur af samskiptum við aðila vinnumarkaðarins vegna þess að það fór lítið fyrir slíkum áhyggjum oft á tíðum á síðasta kjörtímabili. Ég vil líka segja að þetta hlýtur að verða skoðað samhliða kjarasamningum og ég veit ekki betur en að það sé hluti af því þegar kjaraviðræður fara í gang að forustumenn ríkisstjórnar séu á reglulegum fundum með aðilum vinnumarkaðarins og það þekkir hv. þingmaður. Þetta hlýtur því að verða (Forseti hringir.) til umræðu eða skoðunar á næsta ári, en þetta er í fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) og sá sem hér stendur styður það auðvitað.