144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt í þessari ræðu sem ég gæti rætt við hv. þingmann, en mig langar að spyrja um það sem hann var að enda við að segja um aðila vinnumarkaðarins: Upplifir hv. þingmaður frið á vinnumarkaðnum núna? Ég spyr bara sisvona vegna þess að nú stendur yfir læknaverkfall og margt annað og hann heyrði tóninn á fundi með gestum okkar í vikunni.

Mig langaði að vita hvort ég hafi skilið hv. þingmann rétt varðandi Ríkisútvarpið. Má skilja það sem svo að hann telji að við þurfum að setjast niður og breyta lögum um Ríkisútvarpið þannig að það aðlagi sig að breyttum tímum, eins og sagt var? Burt séð frá því að RÚV hefur gengið út frá því nú þegar, áhorf er að breytast og fleira og það er gert ráð fyrir þeirri breytingu. Er eitthvað annað sem hv. þingmaður á við og hver eru þau tækifæri og annað sem birtist í meirihlutaáliti fjárlaganefndar sem meiri hlutinn telur að sé (Forseti hringir.) til þess fallið að stuðla að því að tekjurnar eigi að duga RÚV, eins og þær eru hér lagðar fram.