144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki sanngjarnt að koma hér og nefna það að hundrað aðrar leiðir séu til að styðja við kennslu í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri. Hvernig verður það gert öðruvísi en með beinum fjárframlögum? Er það bara eitthvað sem á að ráðast hér ár eftir ár?

Ég sé að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hvíslar einhverju í eyra þingmannsins. (Gripið fram í.) Ég veit að þau eru sömu skoðunar. (Gripið fram í: Hvaða yfirlýsingar eru þetta?) (Gripið fram í: Nei, nei. ) (Gripið fram í: Hvers lags dónaskapur er þetta?) Ég bendi bara á (Gripið fram í: Nei.) að það er afar ósanngjarnt, virðulegi forseti, að koma hingað upp og nefna það að hægt sé að gera þetta á einhvern annan hátt en hér er lagt til. Það er vilji til að styðja við þessa kennslu, það var vilji til þess á síðasta kjörtímabili, á síðasta ári, eins og ég nefndi hérna áðan. Ég held að við ættum frekar að fagna því en að finna því allt til foráttu og snúa því þannig upp að hér sé einhver sérstök andstaða út í núverandi stjórn Háskólans á Akureyri (Forseti hringir.) vegna þess að svo er ekki. Ég held að hún sé mjög góð og muni standa sig mjög vel í framtíðinni.