144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að óska hv. þingmanni til hamingju með árangurinn í flughlaðinu, þetta hefur verið erfið fæðing. Allt frá því að 30 milljónir voru settar í þetta af fyrri ríkisstjórn á öndverðu ári 2013 hefur gengið böksulega að klára þetta mál, en vonandi dugar þetta til að gera það og það er mikilvægt og þarft.

Varðandi Háskólann á Akureyri mun ég ræða það betur í ræðu minni. En hér er ég með líklega þriggja, fjögurra vikna gamalt skjal í höndunum þar sem sami meiri hluti fjárlaganefndar fellst á að setja inn í fjáraukalög fyrir þetta ár þessar margræddu 30 milljónir annað árið í röð með þeirri skýringu að þetta eigi að vera til að auðvelda skólanum að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara, ýmsa stjórnsýslu og stoðþjónustu. Þetta er með öðrum orðum ekki fjárveiting til að halda uppi tiltekinni kennslu heldur í brýn verkefni í rekstri háskólans og rannsóknarmissiri kennara sem háskólinn hafði orðið að spara sér á erfiðleikatímum. Hvað hefur breyst á þessum þremur vikum? Af hverju er allt í einu núna og á næsta ári (Forseti hringir.) hægt að taka 20 milljónir af þessu og nota í allt aðra hluti? Ég held að meiri hluti fjárlaganefndar skuldi okkur skýringar á því.