144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú göngum við til atkvæðagreiðslu við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2015. Þetta er búin að vera ánægjuleg vinna, umræður langar og góðar eins og vera ber þegar um fjárlög er að ræða. Auðvitað eru skiptar skoðanir um áherslumál ríkisstjórnarinnar en þau birtast glöggt í fjárlagafrumvarpinu. Ríkisstjórnin setur heilbrigðismálin, menntamálin og samgöngumál (Gripið fram í.) í forgang. Ég heyri að fyrrverandi ríkisstjórnarþingmenn eru ósáttir við þann forgang enda voru þeir með allt annan forgang, og af því að verið er að grípa fram í í þessari ræðu þá vil ég segja að nú er verið að vinda ofan af vitleysunni sem fyrri ríkisstjórn fór í á sínum tíma.

Ég þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd kærlega fyrir vinnuna sem að baki er og öllum þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls í umræðunni. Þetta er búið að vera ánægjulegt og nú göngum við til atkvæðagreiðslu í síðasta sinn og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 verður brátt að lögum.