144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Ég vil þakka félögum mínum í fjárlaganefnd bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu fyrir góða vinnu í nefndinni. Ég vil jafnframt fagna því að við erum að afgreiða fjárlög með jöfnuði í ríkisfjármálum, með afgangi í ríkisfjármálum. Vissulega er rétt að það hefði verið jákvætt ef hann hefði verið meiri og það er rétt sem hér hefur verið bent á að við þurfum að vinna í því að lækka skuldir ríkissjóðs til að minnka vaxtakostnaðinn. Hins vegar er það svo að ríkisstjórnin forgangsraðar hér í auknum mæli í þágu heilbrigðismála. Við erum að setja fjármagn í heilbrigðismálin þótt vissulega sé það rétt að við þurfum að gera meira af því, að auka fjármagn meira til heilbrigðismála, en í þessum öðrum fjárlögum ríkisstjórnarinnar aukum við í annað sinn verulega fjármagn til heilbrigðismála. Ég er gríðarlega ánægður með þá forgangsröðun og ég er líka gríðarlega ánægður með það sem við sjáum hér að ríkisstjórnin er að afnema undanþágu sem var sett af fyrri ríkisstjórn á þrotabú föllnu bankanna frá því að greiða eðlilegan skatt inn í íslenskt hagkerfi. (Forseti hringir.) Það er stefnubreyting sem ríkisstjórnin ákvað að ráðast í (Forseti hringir.) og því ber að sjálfsögðu að fagna.