144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:21]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra þessa yfirferð. Ég vil aðeins koma inn á nokkur atriði. Í fyrsta lagi vil ég halda því á lofti, vegna þess að ráðherrann talaði um að þetta hafi verið gert í mikilli sátt, að ekki má gleyma því að engu að síður heyrðust háværar raddir í báðum þessum stofnunum um óánægju með þessa sameiningu.

Þarna er verið að sameina tvær líkar stofnanir en samt ólíkar á ákveðinn hátt. Hér er verið að sameina stofnun sem býr til efni fyrir skólana og stofnun sem metur það efni sem skólarnir vinna með. Lesa má út úr þessu frumvarpi, og ég vil spyrja ráðherrann um það, að Námsgagnastofnun sé á ákveðinn hátt að fara að aðlagast Námsmatsstofnun og vinna Námsgagnastofnunar eða nýrrar Menntamálastofnunar fari í auknum mæli að taka mið af starfi Námsmatsstofnunar, þ.e. samræmdum könnunarprófum sem ráðherra varð því miður of tíðrætt um að mínu mati.

Svo vil ég spyrja ráðherrann: Var kannað hvort þetta væri einhver kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin, því að oftar en ekki er ríkið einn erfiðasti samningsaðili sveitarfélaganna og oft fylgir ýmsum frumvörpum kostnaður fyrir sveitarfélögin sem ekki hefur verið metinn.