144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ráðherra svörin.

Það er auðvitað mikilvægt að við skilgreinum þessa ívilnun og þessa fámennu skóla, hverjir eigi í rauninni rétt á að njóta slíkrar ívilnunar. Mér finnst það vera mjög mikilvægt.

Mig langar í síðara andsvari mínu að velta því upp að ekki liggur fyrir nein heildstæð rekstraráætlun fyrir þessa stofnun. Gert hefur verið ráð fyrir töluverðum útgjöldum sem skipta tugum milljóna sem það á að kosta að breyta þessu. Eitthvað af því er auðvitað einskiptiskostnaður. Einungis voru veittar 15 milljónir núna á fjárlögum yfirstandandi árs. Ef þetta á að taka gildi 1. júlí — hér er líka talað um að rekstrarhalli gæti myndast fyrstu tvö árin eða eitthvað slíkt — sér hæstv. ráðherra það fyrir sér að sækja þurfi um aukafjárveitingar í fjáraukalögum á þessu ári?