144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

aldurstakmarkanir í framhaldsskólanám.

[11:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður sagði í upphafi máls síns að tekin hefði verið ákvörðun um að meina 25 ára og eldri að stunda nám í framhaldsskólum. Í fyrsta lagi er það svo að framhaldsskólinn er áfram opinn fyrir þeim stærsta hluta 25 ára og eldri sem eru í námi, þeim sem eru í iðn- og verknámi, þar er stærsti hlutinn. Síðan var tekin ákvörðun um að hækka fjárframlagið á hvern nemanda upp í tæplega 1,1 millj. kr. á nemanda frá þeim 890 þús. kr. sem hafði farið neðst niður á verðlagi ársins 2014 í tíð síðustu ríkisstjórnar og olli það stórkostlegum skaða í framhaldsskólakerfinu.

Síðan er innritað í samræmi við þá forgangsröðun sem menntamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar bjó til með reglugerð árið 2012. Þar kemur skýrt fram í hvaða röð á að taka inn nemendur. Það er því ekki ný eða órædd ákvörðun hér á þingi að slík forgangsröðun sé til staðar. Það kann að vera aftur á móti að hv. þingmaður hafi misst af þeirri umræðu þegar það var gert en það er ekki við þann sem hér stendur að sakast.

Hvað varðar heildarstöðu framhaldsskólakerfisins þá, eins og ég hef bent hér á, er búið að hækka framlagið á nemanda að meðaltali. Umræðan hefur verið nokkur um þann hóp sem í bóknáminu getur ekki farið inn í framhaldsskólann vegna þeirrar forgangsröðunar sem var mynduð árið 2012.

Þá vil ég benda hv. þingmanni á þann vanda sem er núna í kerfinu þar sem við erum að fara úr yfirþöndu og yfirspenntu kerfi hvað varðar fjölda þar sem nemendum hefur verið að fækka. Og ég vil benda hv. þingmanni á að bara á síðasta ári, árinu 2014, fækkaði nemendum í framhaldsskólakerfinu um rúmlega 600 vegna þess að nemendur fóru sennilega til starfa því að atvinnulífið (Forseti hringir.) hafði skánað. Það er stærri og meiri breyting en sú sem er að verða vegna þessarar (Forseti hringir.) svokölluðu 25 ára reglu og hefur þess vegna (Forseti hringir.) að sjálfsögðu áhrif inn í framhaldsskólann, mönnun hans og hvernig hann er uppbyggður. Þar er um að ræða (Forseti hringir.) stærri tölur, virðulegi forseti. Menn mega ekki rugla þessu tvennu (Forseti hringir.) saman í umræðunni eins og hv. þingmaður gerir iðulega.