144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ríkisframlag til Helguvíkurhafnar.

440. mál
[16:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda kærlega fyrir að opna á þessa umræðu og þakka líka ráðherra fyrir síðustu orð hennar um að það sé kannski möguleiki til þess að það verði veitt fjármagn til uppbyggingar í Helguvík. Það voru mikil vonbrigði fyrir jólin þegar tillögu sem hv. þm. Oddný Harðardóttir og fleiri lögðu fram um að setja 180 milljónir í Helguvík var hafnað, kannski ekki síst í ljósi þess að það hefði kannski gefið íbúum Suðurnesja og Reykjanesbæjar von um að eitthvað færi virkilega að gerast í Helguvík. Eins og þeir sem þekkja umræðuna vita þá hefur það verið þyngra en tárum tekur að fylgjast með því sem hefur gerst á Suðurnesjum allt frá því að fyrsta skóflustungan var tekin að Helguvík. Þetta er eitthvert leiðinlegasta mál sem nokkurn tíma hefur átt sér stað á Suðurnesjum, þessi þræta um Helguvík og ekki síst ásakanir stjórnarandstöðunnar á síðasta kjörtímabili gagnvart þáverandi ríkisstjórn, hún sagði hreinlega að ríkisstjórnin ynni gegn uppbyggingu í Helguvík. Mér sýnist þessi ekkert standa sig betur.