144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[19:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra yfirferðina og hlakka til að ræða þetta mál í nefnd. Þetta er heldur stórt mál. Samkvæmt frumvarpinu fer héraðssaksóknari með lögregluvald á sínu starfssviði og hann fer með rannsókn tiltekinna sakamála, brot gegn stjórnskipan ríkisins, brot gegn valdstjórninni o.fl. Sömuleiðis rannsakar hann samkvæmt lögreglulögum mál þar sem lögreglumenn eru grunaðir um refsivert athæfi í störfum sínum. Ég velti fyrir mér hvort héraðssaksóknari sé nógu óháður lögregluyfirvöldum og hvort ekki sé heppilegra að sjálfstæð stofnun fari með rannsóknir umræddra brota. Eins og ég kom að í ræðu minni í gær hef ég alltaf sérstakar áhyggjur af þessum tengslum á Íslandi, þetta er lítið land, fólk þekkist og héraðssaksóknari fer með mál sem væntanlega eru oft svolítið samhliða lögreglunni. Ég óttast mjög tengslin þarna á milli og velti fyrir mér, eins og ég hef spurt, hvort ekki sé heppilegra að þetta sé algjörlega sjálfstæð stofnun sem fari með eftirlit með lögreglunni. Sömuleiðis langar mig að spyrja hvort og þá hvað hæstv. innanríkisráðherra sjái í vegi fyrir því að búa þannig um málin.