144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Margir telja auglýsingar vera einhvers konar áróður og eingöngu áróður en gleyma því að auglýsingar eru jafnframt upplýsingar, upplýsingar um vöru og þjónustu. Í öllu heilbrigðiskerfinu er meira og minna bannað að auglýsa. Sérfræðingar mega ekki auglýsa þjónustu sína og það hefur hingað til ekki mátt auglýsa lyf. Allt er þetta bannað, allt með þeirri hugsun að auglýsingar séu af hinu illa í einhverjum skilningi. Í mínum huga eru auglýsingar upplýsingar fyrst og fremst til þess að upplýsa fólk um hvað er í boði o.s.frv.

Af þessu tilefni langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra heilbrigðismála hvort hann hafi í hyggju að slaka á auglýsingabanni innan heilbrigðisþjónustunnar sem hindrar alla samkeppni. Hvernig á fólk að geta keppt um t.d. þjónustu, heilsuvernd eða hvað það nú er þegar ekki má upplýsa neitt um það? Þeir sem veita þjónustu, t.d. alls konar þjónustu í heilbrigðiskerfinu, mega ekki upplýsa um það. Hvers lags fordómar eru þetta gagnvart auglýsingum?