144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar kannski, eins og aðrir þingmenn sem tekið hafa til máls um þetta mál, að velta aðeins upp sýn okkar á þessi mál í það heila, þ.e. finnst okkur lyf, þau sem eru ólyfseðilsskyld, vera eins og hver önnur vara sem eigi að auglýsa á sömu forsendum og hverja aðra vöru. Ég er ekki viss um það. Mér finnst við þurfa að fara varlega í það og eiga um það alvörusamtal hvenær við erum að tala um vöru sem er þess eðlis að hana sé eðlilegt að auglýsa eins og hverja aðra markaðsvöru í samkeppni við aðra.

Einnig vildi ég spyrja — það er ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp í örstutta tölu, ég sé það í athugasemdum við frumvarpið að Lyfjastofnun gerir þá athugasemd að tímabært sé orðið að gera heildarendurskoðun á reglum um þetta — hvers vegna menn séu að drífa sig í að gera þessa breytingu án þess að fara í þessa heildarendurskoðun fyrst, hvað hasti, hvort eitthvað sérstakt valdi því að menn þurfi að drífa þessa einu breytingu í gegn en geti ekki beðið eftir heildarendurskoðun á reglunum eins og Lyfjastofnun gerir greinilega athugasemdir við og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Ég hefði gjarnan viljað fá skýringu á því hér á eftir ef hæstv. ráðherra kemur hingað í lokaræðu.