144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

425. mál
[16:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég taka það fram að mér er hvorki kunnugt um né hef upplýsingar um það hvort mikið sé um ólöglegt skógarhögg á Íslandi. Ég tel að svo geti varla verið. Hins vegar er þetta, eins og ég sagði áðan, þó nokkuð brýnt mál fyrir Norðmenn sem eru aðilar að þessum samningi ásamt okkur eins og alkunna er. Hér á landi mun þetta fyrst og fremst hafa áhrif á þá sem flytja inn timbur og timburvörur og dreifa og þess háttar og einhver kostnaður mun væntanlega leggjast á Mannvirkjastofnun vegna eftirlits, en þetta mun skýrast betur þegar lagafrumvarpið kemur fram. Það á að mér skilst ekki að verða mikill kostnaður.

Varðandi dómana sem hv. þingmaður nefndi hér þá er það rétt að fimm dómar féllu nýlega fyrir EFTA-dómstólnum vegna þess að við höfum í rauninni ekki staðið okkur í því að innleiða reglugerðir eins og okkur ber. Það kunna að vera ýmsar ástæður fyrir því að við sjáum fleiri mál enda fyrir dómstólum. Það getur verið að við séum með of hæga afgreiðslu hér á Íslandi, hvort sem það er framkvæmdarvaldið eða löggjafinn. Það kann líka að vera, sem er ekki ólíklegt, að meira komi af slíkum sendingum hingað til okkar o.s.frv. Niðurstaðan er samt sú að það er vitanlega ekki gott að missa þessi mál í þennan farveg. Það er býsna augljóst að við þurfum að innleiða mörg þeirra hvað sem tautar og raular. Af þessu hlýst vitanlega fyrirhöfn af Íslands hálfu, mögulega kostnaður o.fl.

Ég tek því orð þingmannsins sem hvatningu um að við stöndum okkur betur. Það er í takt við vilja okkar. Við höfum verið með þeim slökustu þegar kemur að því að taka þessar reglugerðir upp. Þær eru vitanlega mikilvægar fyrir samkeppnisumhverfi sem íslensk (Forseti hringir.) fyrirtæki gera út á.