144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

samningur hafnríkja til að uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

451. mál
[17:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar sem undirritaður var í Róm 22. nóvember 2009. Samningurinn um hafnríkisaðgerðir er fyrsti bindandi alþjóðasamningur á sviði fiskveiða síðan úthafsveiðisamningurinn var gerður árið 1995. Samningurinn er nátengdur efni úthafsveiðisamningsins, en í 23. gr. þess samnings er ríkjum játuð heimild og lögð á þau skylda til að beita hafnríkisreglum í lögsögu sinni til að stuðla að virkni alþjóðlegrar verndunar og stjórnunarráðstafana.

Við gerð samningsins var tekið mið af og litið til óbindandi leiðbeininga FAO um hafnríkisaðgerðir sem voru helsta fyrirmynd hafnríkisreglna NEAFC (Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar) og NAFO (Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar) sem Ísland, ásamt öðrum strandríkjum við Norður-Atlantshaf, hefur innleitt. Ísland hefur verið í fararbroddi ábyrgra strandríkja, ásamt öðrum þjóðum við Norður-Atlantshaf. Hér á landi er löng reynsla af beitingu hafnríkisaðgerða í því skyni að torvelda ólöglegar veiðar.

Í samningnum er mælt fyrir um skyldu ríkja til að beita ólíkum stjórntækjum í því skyni að ýta undir ábyrgar fiskveiðar, svo sem með lokun hafna gagnvart skipum sem eru „svartlistuð“ af svæðisbundnum fiskveiðistjórnarstofnunum, málsmeðferð til að knýja fánaríki til ábyrgðar í erlendum höfnum, setningu tiltekinna lágmarkskrafna um upplýsingamiðlun, eftirlitsaðgerðir, fyrirbyggjandi ráðstafanir, stuðning við þróunarríki og samvinnu.

Samhliða framlagningu þingsályktunartillögu þessarar leggur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um veiðar og vinnslu erlendra fiskveiðiskipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.