144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar frá hv. þingmanni. Ég held að mikilvægt sé að hafa í huga hvað bæði þessi ákvæði í frumvarpinu varðar að verið er að reyna að horfa til mikilvægra ákvæða í mannréttindakaflanum og um leið að tryggja að við virðum ákvæði sem snýr að stjórnarskránni varðandi sjálfræði sveitarfélaganna.

Hér er annars vegar um að ræða leiðbeinandi reglur til sveitarfélaganna varðandi fjárhagsaðstoðina. Það sýndi sig að þegar það var gert, í samstarfi til 2011, fóru sum sveitarfélög mjög nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum en önnur sveitarfélög ekki. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta ákvæði sé til staðar, um að ráðuneytinu sé gert að gefa þessar reglur út árlega, og að við getum fylgt því betur eftir gagnvart sveitarfélögunum og birt nöfn þeirra sveitarfélaga sem fara ekki að þessum reglum.

Það sama á við varðandi virkniákvæðið, það er líka heimildarákvæði, þannig að sveitarfélögunum er frjálst að nýta það ekki ef þau telja að það sé ekki rétt.

Þeir sem hafa verið að vinna í ráðuneytinu og utan ráðuneytis, meðal annars í gegnum velferðarvaktina sem hefur verið að huga sérstaklega að fátækasta hópnum, hafa talað um skilgreiningu sem Hagstofan birtir og er hluti af félagsvísunum en þar eru lágtekjumörkin skilgreind. Ég held að við hljótum að geta sameinast um að vinna að því að ekkert barn og engin íslensk fjölskylda eigi að búa við það að vera undir þeim lágtekjumörkum sem þar er talað um. Stuðningur hins opinbera, hvort sem við erum að tala um framfærsluaðstoðina, barnabætur eða annan stuðning, tryggir að engin fjölskylda fari undir þau skilgreindu lágtekjumörk sem eru birt af Hagstofu Íslands og byggjast á alþjóðlegum viðmiðum.