144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

bygging sjúkrahótels.

[10:54]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem frá var horfið eftir fyrirspurn hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur og varpa hér spurningu til heilbrigðisráðherra varðandi nefnt sjúkrahótel. Umræða um þessa nýju byggingu á lóð Landspítalans hefur verið nokkur undanfarnar vikur og sitt sýnist hverjum um forgangsröðina sem þar er höfð frammi.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra. Eins og fram kom í máli hans eru samningar ríkisins í gildi við einkarekið sjúkrahótel. Mig langar í því sambandi að vita hvort sú starfsemi anni ekki eftirspurninni í dag eftir þeirri þjónustu sem sjúkrahótelum er ætlað að veita. Í framhaldi af því langar mig að vita, þótt það sé langt mál að rekja allt ferlið í heild sinni, í stuttu máli hvort það sé einhugur innan spítalans um þessa tilteknu forgangsröðun og hverjir lögðu helst til að ráðist yrði í byggingu þessa húss með þessum rekstri á þessum tíma.

Mig langar örlítið að hnykkja á þeirri spurningu sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir kom inn á varðandi rekstrarfyrirkomulagið. Skildi ég hæstv. heilbrigðisráðherra rétt að ekki væri búið að ákveða rekstrarfyrirkomulagið á nýrri starfsemi, sem hin nýja bygging mun fela í sér, um sjúkrahótel?