144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfshópur um myglusvepp.

488. mál
[16:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Mér finnst þetta mjög mikilvægt mál. Það eru að minnsta kosti liðnir sex mánuðir frá því að þessu verki átti að ljúka, en ánægjulegt að heyra að það eru að koma niðurstöður í þetta mál og skýrsla um réttarstöðu þessa fólks meðal annars. Við vitum jú að þetta snýst ekki bara um hversu margir verða veikir heldur er fólk í húsnæðishrakningum, margt hvert, því að það fer úr einu húsnæði í annað og er orðið mjög viðkvæmt þegar það hefur búið við slíkar aðstæður til langs tíma.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra án þess að ég hafi séð nokkrar niðurstöður: Kom aldrei til greina að fá landlæknisembættið með í þessa vinnu, m.a. til þess að horfa út frá fræðslu- og leiðbeiningarþættinum sem ráðherra nefndi að hefði verið eitt af því sem þessi nefnd var að skoða?