144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í stjórnarskránni er einmitt tekið fram að eignarrétturinn sé ekki fortakslaus, það sé hægt að afnema hann en þá komi gjald fyrir. Ég virði almannaréttinn mikils og ég lít á hann sem mjög helgan en þegar við lendum í þeirri stöðu að það er ekki einn maður sem veldur tjóni, 10 manns valda ekki tjóni heldur eru þeir orðnir 100 eða 1.000, svo maður tali nú ekki um 20 eða 30 eða 50 þúsund sem ganga Laugaveginn, þá verður eitthvað að gera, þá verður eitthvað undan að láta. Ég veit að hv. þingmaður vill ekki að náttúran láti undan, þótt hún hafi þegar gert það og orðið sé mjög brýnt að koma með einhverja lausn sem verndar náttúruna fyrir átroðningi fjöldans sem hún hreinlega þolir ekki.

Ég minntist á Keili, ég minntist á Kattahryggi o.s.frv. Það er víða sem við sjáum óskaplegan átroðning. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður vilji láta það viðgangast með vísan í almannarétt, ég trúi því ekki þannig að eitthvað þarf að gera. Ég hugsa að það verði lagðir stígar niður Kattahryggi, malarstígar. Ég geri ráð fyrir að það verði ljótt eins og annað sem gert hefur verið. Ferðamenn munu halda sig á þessum stígum, burt séð frá Grágás, almannarétti o.s.frv., og þeir munu gæta þess að skemma ekki náttúruna með fjölda sínum, ekki hver og einn heldur að fjöldinn skemmi ekki náttúruna.