144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:49]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þann áhuga sem hann sýnir þessu máli, búinn að vera hér þaulsetinn við umræðuna. Aðeins til að draga saman þær athugasemdir sem hv. þingmaður hefur þá finnst mér þær snúa fyrst og fremst að almannaréttinum í fyrsta lagi og síðan áhyggjum af einkaaðilum. En ég verð að segja þingmanninum til hróss að hann kemur með skoðanir sínar á því hvaða leiðir eigi að fara og leggur þær hér inn í umræðuna. Þess vegna er ég þó eftir allt saman enn bjartsýn á það að í sameiningu getum við fundið lausn á þessu máli.

Ég vil aðeins leiðrétta það sem hv. þingmaður sagði í fyrsta lagi um einkaaðilana. Ég hef ekki tekið afstöðu með einum eða neinum. Þvert á móti hef ég sagt ítrekað í umræðunni að um þetta ríki lögfræðilegur ágreiningur. Það sem ég er að segja og það sem við erum að leggja til í frumvarpinu er að í fyrsta lagi eru ríki og sveitarfélög að taka ábyrgð á sínum svæðum og segja: Það verður ekki rukkað með öðrum hætti fyrir aðgang að þessum svæðum. Í öðru lagi erum við ólíkt öðrum leiðum sem hafa verið í umræðunni, ólíkt löggjöfinni sem er núna og má segja að þetta viðfangsefni hafi verið skilið eftir óleyst af hv. síðustu ríkisstjórn hvað þetta varðar, þ.e. það er ekki verið að taka af skarið heldur er verið að bjóða einkaaðilum til samstarfs með okkur inn í þetta gegn því að þeir rukki ekki sjálfir. Og hvorki með brottfarargjaldi né komugjaldi, eða öðrum þeim leiðum sem hv. þingmaður nefnir, er verið að taka á þessu. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Af hverju var þetta lögfræðilega álitaefni skilið eftir óleyst af hálfu síðustu ríkisstjórnar ef mönnum er það svona mikilsvert að fá úr þessu skorið.