144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

uppbygging innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

427. mál
[20:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Mig langar til að að taka til máls í 1. umr. um það ágæta mál sem hæstv. ráðherra mælti fyrir áðan og segja að það er mjög í anda þess sem ég tel nauðsynlegt að gera þegar kemur að þeim verkefnum sem við blasa á ferðamannastöðum víðs vegar um landið. Það er mjög jákvætt að hér sé verið að skipuleggja sig til lengri tíma og búa til áætlanir sem fylgja á. Það er mjög í anda þingsályktunartillögu sem ég flutti síðasta vetur og samþykkt var á vordögum síðasta árs um skipulagningu ferðamannaleiða þar sem hugmyndin var að kortleggja hvaða leiðir væru sérstaklega merktar sem gönguleiðir, hestastígar, reiðhjólastígar og samtengt í einn samfelldan kortagrunn með svipuðum hætti og þekkist í mörgum Evrópulöndum eins og til dæmis Austurríki sem hefur kortlagt ferðamannaleiðir sínar, sem er til mikillar fyrirmyndar.

Hér er verið að gera eitthvað svipað að því leytinu til að verið er að horfa til uppbyggingar á ferðamannastöðum sem allir eru sammála um að er nauðsynleg. Hins vegar hefur í umræðunni um náttúrupassa verið sagt að allir séu í sjálfu sér sammála um markmiðið, þ.e. að ná og sækja peninga með einhverjum hætti til þess að geta stuðlað og staðið að þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er. Það eru ekki endilega allir sammála um að það sé nauðsynlegt fara í einhvers konar skattlagningu vegna þess að sú peningaupphæð sem þarf til uppbyggingarinnar er ekki óyfirstíganleg þegar litið er til heildarrekstrar ríkisins. Í sjálfu sér er það bara pólitísk ákvörðun og ákvörðun út af fyrir sig að leggjast í sjálfstæða skattlagningu til þess að standa undir þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að teiknuð verði upp. Auðvitað eru til peningar í ríkisrekstrinum til þess að gera þetta en menn kjósa og hafa kosið, og það er pólitísk ákvörðun, að leggja til sérstaka skattlagningu í formi náttúrupassa, sem ég held að reyndar sé sísta leiðin til þess að standa undir þeim verkefnum sem við blasa. En látum það liggja milli hluta.

Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega um þetta frumvarp nema ég vil geta þess sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom inn á varðandi 8. gr. Miðað við almannaréttinn eru öll landsvæði opin gjaldfrjálsri umferð, það þarf að vera alveg skýrt að ekki er verið að breyta því þannig að menn fari ekki að gagnálykta um þessa grein hér, þ.e. að segja að eitthvað annað gildi þar.

Það leiðir okkur að því sem mikilvægt er. Það er mikilvægt að setja hluti í ferli og skipulag, og flokkur minn, Björt framtíð, er mjög fylgjandi slíku verklagi, að ekki sé verið að veita styrki með sms-skilaboðum o.s.frv., heldur fari það í opið ferli sem öllum er kunnugt um og ákveðið hvernig þetta skuli gert svo allir geti gengið að sem vísu. En það þarf að gera þetta í réttri röð. Menn þurfa að vera búnir að klára það og setja það niður fyrir sér með hvaða hætti almannarétturinn er skilgreindur þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um það. Það er því alveg rétt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom inn á áðan; það þarf að skilgreina almannaréttinn áður en gengið er frá því máli þannig að menn séu algerlega með það á hreinu.

Ég legg áherslu á að samhliða því þurfa menn að ljúka við gerð náttúruverndarlaganna. Reyndar er hafið ágætissamstarf eða samflot á milli umhverfis- og samgöngunefndar og umhverfisráðuneytis í þessum efnum sem ég held að sé mjög jákvætt. Það er ekki endilega þannig að menn vinni þetta saman en verið er að sýna á spilin og það er bara hið besta mál. Samráð og samtal er alltaf til bóta. Hægt er að leysa ótrúlega mörg mál ef fólk talar saman.

En það er ekki nóg að menn klári náttúruverndarlögin til þess að koma skikk á þessi mál, menn þurfa líka að átta sig á því hvaða leiðir eru færar þegar kemur að því að fjármagna þessi verkefni.

Ég vara við því að horft sé á það sem eitthvað sjálfgefið og að eina mögulega lausnin sé að leggja út í mikla gjaldtöku til þess að gera þetta. Sjálfsögð verkefni blasa við í þessum efnum og það getur vel verið að hægt sé að finna fjármagn öðruvísi en með því að leggjast í sérstaka skattheimtu, ég tala nú ekki um þegar menn ætla að búa til nýtt og alveg sjálfstætt kerfi til þess að innheimta þá peninga þegar þeir hafa margvíslegar leiðir til þess að innheimta gjöld, skatta og annað slíkt nú þegar. Mér finnst mikilvægt að það komi fram.

Ég vil líka segja að það er mjög mikilvægt í samhengi við þetta mál að verið sé að vinna öll mál sem tengjast náttúrunni, náttúruvernd og umhverfismálum í einni samfellu, að allir tali saman í þessum efnum, að menn búi sér ekki bara til mjög vel skipulagðar og útfærðar áætlanir í þessu máli en virði síðan algjörlega að vettugi lagarammann í kringum vernd og nýtingu, hina svokölluðu rammaáætlun og umgangist það algjörlega eins og þeim hentar hverju sinni, að þeir leggi til einhverja flýtimeðferð á hinum og þessum kostum sem hvergi er getið um í lögunum og ekki er gert ráð fyrir og var aldrei gert ráð fyrir þegar lögin voru sett. Það er því mikilvægt að þetta haldist í hendur og að menn vandi virkilega til verka.

Að þessu sögðu ætla ég að setja hér punktinn í þessari ræðu. Ég fagna því að þetta mál sé komið fram. Ég hef bara rennt yfir það einu sinni og mér sýnist það vera ágætlega unnið og hlakka til að fara betur yfir það í umhverfis- og samgöngunefnd.