144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

stjórn vatnamála.

511. mál
[21:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Frumvarpið er lagt fram til innleiðingar á 9. gr. rammatilskipunar Evrópusambandsins um verndun vatns, svokallaðrar vatnatilskipunar. Tilskipunin var að öðru leyti innleidd hér á landi með lögum um stjórn vatnamála sem tóku gildi árið 2011.

Markmið laga um stjórn vatnamála er líkt og tilskipunarinnar að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa, votlendis og vistkerfa sem beint eru háð vatni til að stuðla að því að vatn njóti heildstæðrar verndar. Í 9. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríkin skuli sjá til þess að frá hinum ýmsu sviðum vatnsnotkunar komi framlag til kostnaðar vegna vatnsþjónustu, þar á meðal fyrir umhverfis- og auðlindatengdum kostnaði. Þessi grein var ekki innleidd með lögum um stjórn vatnamála.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi gert ráð fyrir skilgreiningu á vatnsþjónustu og í öðru lagi er gert ráð fyrir gjaldtöku sem er ætlað að standa undir kostnaði vegna áðurnefndrar vatnsþjónustu. Samkvæmt frumvarpinu felur skilgreining á vatnsþjónustu í sér alla þjónustu fyrir heimili, stofnanir og atvinnustarfsemi sem fólgin er í vatnstöku, miðlun, geymslu, hreinsun eða dreifingu yfirborðsvatns eða grunnvatns og að auki söfnun og meðferð skólps. Í frumvarpinu er farin sú leið að túlka vatnsþjónustu sem þá þjónustu sem hitaveitur, vatnsveitur, fráveitur og orkuframleiðendur veita.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að til að standa undir kostnaði vegna vatnsþjónustu verði lagt á árlegt gjald sem endurspegli nýtingu og álag á vatnsauðlindina. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði lagt á veitendur vatnsþjónustunnar sem aftur geti innheimt kostnaðinn af endanlegum notendum. Við útreikning fjárhæða gjaldsins sem gert er ráð fyrir að áðurnefndir notendur vatns greiði skal tekið mið af vatnsnotkun þeirra en markmið gjaldtökunnar er að fjármagna kostnað Umhverfisstofnunar við framkvæmd laga um stjórn vatnamála.

Frá því að lög um stjórn vatnamála tóku gildi árið 2011 hefur kostnaður Umhverfisstofnunar vegna laganna verið fjármagnaður með fjárveitingu á fjárlögum. Fjárframlög til vatnamála hafa lækkað mikið á þessu ári og gert var ráð fyrir að gjaldtaka hæfist fyrr en raunin hefur orðið. Það hefur hægt á vinnu við framkvæmd laganna frá áætlun sem gerð var en Íslandi ber skylda til að hafa lokið vissum áföngum, samanber vatnatilskipun, til að hafa sambærileg gögn á við önnur aðildarríki á EES-svæðinu og geta sýnt fram á gæði vatns. Gert er ráð fyrir að ríkið komi að einhverju leyti að kostnaði við framkvæmd laganna. Áætlað er að rekstur grunnkerfis samkvæmt vatnalögum greiðist úr ríkissjóði og sá kostnaður muni nema 35 millj. kr. ár hvert. Árið 2015 er þó gert ráð fyrir meiri kostnaði úr ríkissjóði þar sem gjaldtaka samkvæmt frumvarpinu hefst ekki á fráveitum fyrr en árið 2016 en áætlað er að þær greiði samtals 15 millj. kr. á ári.

Gert er ráð fyrir að notendur greiði samtals 40 millj. kr. árið 2015 en 55 millj. kr. árin 2016 og 2017. Fyrirhugað er að endurmeta kostnaðarþátttöku notenda þegar drög að fyrstu vatnaáætlun liggur fyrir sem áætlað er að verði árið 2017. Ísland er afar auðugt af ferskvatni og ástand vatns er hér almennt mjög gott. Miklu máli skiptir fyrir viðskipti, ímynd og umhverfisgæði landsins að ástand vatns hér á landi sé gott og að geta sýnt fram á það með skýrum hætti.

Frá því að lög um stjórn vatnamála tóku gildi hefur farið fram greining á því hver staðan er í raun og grundvallast sú vinna og aðferðafræði sem er hin sama alls staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Vinna að vatnaáætlun mun væntanlega leiða í ljós að vatnsgæði eru hér almennt mjög mikil og færa fram skýr rök fyrir því og tölur sem bjóða upp á samanburð við önnur ríki. Einnig mun koma betur í ljós hvar er við vanda að glíma og hvers eðlis hann er. Þessi vinna stuðlar að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Tryggja þarf framkvæmd laganna um stjórn vatnamála til að bæta þekkingu okkar á vatnsauðlindinni og að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Frumvarpinu er ætlað að gera það með því að koma á gjaldtöku og styrkja þannig fjárhagsgrundvöll fyrir framkvæmd laganna.

Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.