144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það vakna vissulega margar spurningar í umræðu um þau mál sem við ræðum hér um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur að hún talaði um að atvinnuástandið í landinu hefði batnað og tengdi það því að þá mætti þrengja og skilyrða reglur um rétt til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Ég sé í sjálfu sér ekki beint samhengi þarna á milli. Eins og kom líka fram í máli hv. þingmanna þá ætti frekar að vera hægt að halda vel utan um þann hóp sem fellur ekki undir þau atvinnutilboð sem eru í boði, sem hefur jafnvel verið atvinnulaus í þrjú ár og þiggur í framhaldi af því fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Það eru kannski ekki miklar líkur á að þeir einstaklingar, þó að þeir séu taldir vera vinnufærir, stökkvi í ýmis störf sem hafa komið til, við getum nefnt í byggingariðnaði, í fjármálageiranum eða guð má vita hvar, að ekki þurfi að halda eitthvað meira utan um þann hóp frekar en að ætlast til að það fólk geti gengið í slík störf.

Ég spyr mig líka: Af hverju er ekki verið að vinna að því hjá hæstv. ráðherra að koma með samhliða átak til atvinnusköpunar fyrir einmitt það fólk sem er á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga? (Félmrh.: Lesa frumvarpið!) Er það ekki eitthvað sem þarf virkilega að vinna að? Horfandi fram á það að fjármunum til vinnumarkaðsúrræða í síðustu fjárlögum … (Félmrh.: … ekki skorið niður heldur bætt í.) Það var ekki skorið niður heldur bætt í, fullyrðir hæstv ráðherra. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra í þeim efnum. Ég hef í ferðum mínum um Norðvesturkjördæmi heyrt kvartað yfir því, t.d. vegna atvinnuástands á Vestfjörðum, að það sé mjög lítið borð fyrir báru til þess að sinna vinnumarkaðsaðgerðum hjá útibúum Vinnumálastofnunar. Þannig er það nú bara, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Ég held að hæstv. ráðherra eigi að líta í eigin barm með þessi mál en ekki vísa á hæstv. fjármálaráðherra eða einhverja aðra. Þetta ástand er óásættanlegt og menn geta ekki bara stillt upp einhverju plani sem lítur þannig út á pappír að vandi þessa fólks hverfur heldur á að vinna með þeim eru komnir á þann erfiða stað að þurfa að þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga með uppbyggilegri hætti en svo að refsa því fólki ef það fellur ekki inn í virkniúrræði og getur ekki tekið einhverja vinnu sem býðst og hefur í raun og veru ekki neina hæfni til þeirrar vinnu sem í boði er.

Mér finnst að hæstv. ráðherra verði að svara því þegar hún flytur ræðu sína hér á eftir hvað verði um þann hóp, óhreinu börnin hennar Evu, sem er annaðhvort tímabundið tekinn af fjárhagsaðstoð eða fjárhagsaðstoð skert um allt að helming hjá honum. Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér að verði um þetta fólk? Er ekki hætta á að kostnaðurinn lendi á heilbrigðiskerfinu, að þetta fólk fari út á hættulegar brautir, brautir vímuefna og annars slíks og verði félagslega undir í samfélaginu og að vandinn verði enn þá meiri þegar upp er staðið? Ég er mjög hrædd um það sem kom fram í ræðu hjá hv. þingmanni áðan, félagslegar afleiðingar hjá þeim hópi sem fellur milli skips og bryggju. Ég hef miklar áhyggjur af því að þær eigi eftir að verða (Forseti hringir.) samfélaginu dýrar.