144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú erum við að ræða breytingar á lögum sem fjalla um grunnöryggisnet í samfélaginu. Andi þeirra laga, gildandi laga frá 1991, gengur út á að einstaklingnum sé skapað öryggi og þau skilyrði sem nauðsynleg eru til þess að hann fái lifað og dafnað eðlilega í samfélagi við aðra. Það er andinn í þeim lögum. Nú er verið að gera breytingar og vissulega undir því yfirskini að samræma þurfi hlutina á milli sveitarfélaga, sem er kannski skiljanlegt, en farið er í þá átt sem ég tel að breyti anda laganna stórkostlega. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það með mér og hvort hún þekki til undirbúnings þessa frumvarps og þær greiningar sem hafa farið fram á því hverjir eru líklegastir til að verða fyrir þessum skerðingum.

Nú þekkjum við tölur frá Reykjavíkurborg sem sýna að flestir sem fá aðstoð Reykjavíkurborgar eru ungar einstæðar mæður. Ef þær verða fyrir skerðingum fá þær aðeins aðstoð sem dugar náttúrlega engan veginn til þess að framfleyta fjölskyldu á nokkurn hátt. Við höfum nýlega fengið upplýsingar um fjölda fátækra barna á Íslandi og ég spyr hv. þingmann hvort hún telji að þetta auki fátækt og hvort hún (Forseti hringir.) þekki til greiningar hvað þetta varðar.