144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir fyrirspurnina frá hv. þingmanni. Auðvitað hefði verið eðlilegra að bregðast við á annan hátt varðandi skilyrðingar fjárhagsaðstoðar. Við skulum ekki gleyma því að sú fjárhagsaðstoð sem fólk fær frá sveitarfélaginu er mjög lág. Það segir sig enginn til sveitar af því að það er svo frábært að lifa undir fátæktarmörkum. Það segir sig enginn til sveitar af því að þegar fólk þarf að fá stuðning frá sveitarfélagi sínu er það niðurlægjandi, það er erfitt, menn þurfa að fara í gegnum mjög strembið ferli. Hver og einn hefur sinn félagsráðgjafa sem fer með honum í gegnum málin og á Íslandi er það þannig að þegar maður kemur til sveitar þarf maður að verða að einhvers konar kerfisfræðingi til að skilja hvaða réttindi manni ber hjá sveitarfélaginu. Það er bara þannig. Í þeim löndum sem við miðum okkur gjarnan við á tyllidögum, á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku, þegar maður kemur til sveitarfélags þar fær maður allar upplýsingar um réttindi sín. Það er himinn og haf á milli framkvæmdarinnar við stuðning hjá þeim sem lenda í þeirri erfiðu aðstöðu að þurfa að segja til sveitar hérlendis og þar. En hvað ætlum við að gera, ætlum við að bæta það? Nei, við ætlum að skerða það frekar. Við getum sannarlega kynnt þeim skerðingarnar og lagt mikið í það.

Að sjálfsögðu ætti það að vera þannig að við veitum orku og tíma í að finna úrræði sem aðstoðar fólk til að komast út úr erfiðum aðstæðum. Við vitum nákvæmlega hvaða hópar það eru helst sem fá ekki vinnu. Horfumst í augu við það. Við getum ekki útrýmt vandamálinu. Við getum lagað það og stutt þá sem (Forseti hringir.) við eigum að standa vörð um hagsmuni hjá, en ekki gera þeim lífið erfiðara.