144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum enn frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég held að nú, þegar sér fyrir endann á umræðunni, sé ágætt að víkja svolítið að því hvert markmiðið er í grunninn með löggjöf um félagsþjónustu. Kannski getum við jafnvel freistað þess að leita að einhvers konar samfélagslegum yfirmarkmiðum sem eru hvergi orðuð en eru rauður þráður í gegnum það að við yfir höfuð þurfum að setja á blað frumvörp og löggjöf í málaflokki sem þessum.

Ég mundi vilja geta haldið því fram að það væri sameiginlegt yfirmarkmið okkar allra sem hér stýrum og höfum með löggjöf og framkvæmdarvald að gera að segja sem svo að yfirmarkmiðið okkar sé betra samfélag, gott samfélag, það sé það sem við viljum sjá að gerist með þessari löggjöf og annarri, þ.e. að samfélagið verði betra, að við gætum að því sem er gott í samfélaginu og færum til betri vegar það sem ekki er jafn gott. Ég sé ekki fyrir mér að nokkur maður mundi andmæla því.

Í markmiðsgreininni í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, 40/1990, sem verið er að breyta með frumvarpi félagsmálaráðherra, segir — og þetta er líka mikilvægt vegna þess að við höfum verið að ræða hér hvert sé hið raunverulega markmið með frumvarpinu sem er kuldalegt frumvarp, eins og ég orðaði það áðan í andsvari við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Í 1. gr. laganna sjálfra segir, með leyfi forseta:

„Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því

a. að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti,

b. að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna,

c. að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi,

d. að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.“

Það er engu líkara en að hæstv. ráðherra hafi misst sjónar á markmiðsákvæði laganna sjálfra við að leggja frumvarpið fram. Ég brýndi hæstv. ráðherra í gær í samskiptum við hana í ræðustól Alþingis í því að gleyma ekki þeirri mikilvægu vakt sem hún ber ábyrgð á í Stjórnarráði Íslands. Það er vaktin fyrir fátækt fólk, það er vaktin fyrir þessi markmið, þessi grundvallarmarkmið sem eru að huga að þeim sem standa höllustum fæti í samfélaginu. Auðvitað eiga allir að gera það. En vakt félagsmálaráðherra er fortakslaus, hún er fortakslaus. Það er hlutverk hennar í Stjórnarráðinu að hafa félagslegu og samfélagslegu gleraugun á nefinu við allar spurningar sem spurt er.

Við tölum stundum um að hafa kynjagleraugu, við tölum stundum um að gæta að hagsmunum komandi kynslóða í öllum okkar ákvörðunum og öll þurfum við að reyna að missa ekki sjónar á öllum þeim þáttum þegar verið er að taka ákvarðanir. En verkefni félagsmálaráðherra er númer eitt, tvö og þrjú að minna okkur öll hin á þegar og ef við missum sjónar á því að gott samfélag er þá og því aðeins gott að allir geti notið sín, allir.

Þess vegna vildi ég hér, virðulegi forseti, í þessari stuttu síðari ræðu minni við 1. umr. málsins bara vekja athygli á því að það er gríðarlega mikilvægt að missa ekki sjónar á samfélagslegum meginmarkmiðum okkar sem hér erum sem þurfum alltaf að hugsa um debet og kredit og að allt stemmi, en fyrst og fremst erum við að skapa samfélag þar sem allir geta lifað með reisn.