144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Hvati og jákvæðar leiðbeiningar og jákvæðar leiðir, leiðir sem byggja mann upp í staðinn fyrir að brjóta mann niður eru vænlegastar til árangurs alls staðar, við vitum það. Einu sinni var talið að það væri gott að ala börn upp með því að rassskella þau. Við erum sem betur fer alveg horfin frá þeirri stefnu sem siðað samfélag.

Þetta er svolítið þannig. Þegar ég heyrði af þessu máli átti ég bara ekki til orð, að einhver skyldi láta sér detta í hug að þetta væri leiðin til þess að virkja fólk. Jú, jú, það getur vel verið að einhverjir verði virkari, en til langs tíma litið held ég að sú virkni sem skapast af því að maður getur ekki gert annað muni enda með ósköpum. Ef maður tekur að sér eitthvað sem maður getur ekki valdið mun það enda með ósköpum. Hugmyndafræðin er þess eðlis að ég sem borgari í þessu landi vil ekki búa í samfélagi sem stefnir í þá átt, ég vil það ekki. Ég vil ekki sem þingmaður í þessu samfélagi taka þátt í því að hleypa svona máli í gegnum Alþingi. Ég lofa því, og ég er sannfærð um að hv. þingmaður er sammála mér um það, að ég skal gera hvað sem ég get og beita öllum þeim tækjum sem eru hér í boði til þess að stöðva þessa vegferð, því að hverju megum við eiga von á ef við samþykkjum þetta?