144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Meinið heitir markaðshyggja, peningahyggja, hægri stefna og stundum nýfrjálshyggja. Það snýst um að samfélagið snúist í raun ekki um fólk heldur um rekstur. Það er mjög skylt því sem kom fram hér í áherslum hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi rekstrarform í heilbrigðiskerfinu, það er mjög skylt þeirri umræðu. Það er mjög skylt fjöldamörgum áhersluatriðum sem öll snúast um að hverfa frá því að samfélagið snúist um samstöðu og að þeir sem eigi meira greiði meira í almenna og sameiginlega sjóði og að þeir njóti sem mest þurfa á að halda. Samfélag er nefnilega félag, það er ekki rekstrareining.

Það er til ráða að brýna félagsleg sjónarmið og stilla saman strengi meðal félagslegra afla í samfélaginu, verkalýðshreyfingar, hagsmunasamtaka og grasrótarhreyfinga þeirra sem hafa þessi markmið að leiðarljósi og þeirra stjórnmálahreyfinga sem þykir skipta máli að halda því til haga að samfélag sé dýrmætt og að það taki tíma að snúa skemmdarverkum á samfélagi til baka.

Þetta var stutta svarið, virðulegur forseti.