144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

Hafrannsóknastofnun.

[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort fjársvelti Hafrannsóknastofnunar tefli ekki í tvísýnu verulegri verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið, hvort það sé ekki þannig að skortur á loðnurannsóknum tefli því í tvísýnu að við náum þeim verulega afla sem vonir stóðu til á loðnuvertíðinni. Ég spyr hvort aukið fjármagn til hafrannsókna hefði ekki getað skilað okkur upplýsingum um loðnuna fyrr, skilað okkur viðbótarkvóta fyrr og nýtt þau skip sem til reiðu voru í janúar mun fyrr til að afla loðnunnar, hvort bræla og aðrar slíkar aðstæður geri ekki að verkum að nú geti þessi verðmætaöflun verið í uppnámi. Ég spyr hvort þetta undirstriki það ekki að við þurfum að verja meira fé til fiskirannsókna, til Hafrannsóknastofnunar, til að tryggja að verðmæti eins og hér eru í húfi skili sér á land. Hvað kostar það okkur sem þjóðarbú, hæstv. ráðherra, ef ekki nást til að mynda 100 þús. tonn af loðnu hér á land á þessari vertíð?

Hefði ekki verið skynsamlegra að fara sér nokkuð hægar í því að lækka veiðigjöldin og reyna að búa þá skaplega um fiskirannsóknir í landinu og reyna að stuðla að því að við fáum sem mest af verðmætum á land fyrir útgerðina, fyrir sjómennina, fyrir byggðirnar, fyrir ríkissjóð og fyrir samfélagið allt?