144. löggjafarþing — 66. fundur,  16. feb. 2015.

sjúkratryggingar.

242. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. velfn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við þá breytingartillögu sem fyrir liggur eftir 2. umr., að í stað orðanna „dveljast hér samkvæmt“ og „dveljist hér samkvæmt“ komi orðin: hafa; og: hafi. Þannig að breytingartillagan hljóðar þá svo, með leyfi forseta:

„Flóttamenn sem stjórnvöld hafa veitt hæli og einstaklingar sem hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum þessum að því tilskildu að þeir séu komnir til landsins og fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns eða hafi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.“

Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: „Flóttamenn og einstaklingar sem hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“

Hér er um orðalagsbreytingu að ræða, virðulegur forseti, ívilnandi fyrir þá sem hér um ræðir.

Ég legg til að breytingartillagan verði samþykkt.